Thursday, May 19, 2016

Hafrastangir
Sumarið alveg að vera komið. Maður finnur að sólin er farin að ylja aðeins og maður vaknar ferskari á morgnana og fuglarnir farnir að syngja fyrir mann :)

Börnin halda áfram að stækka og það var pinu sjokk þegar ég fattaði það að ég er að fara ferma á næsta ári. Ég sem er sjálf nýfermd!

Og þegar maður á ágætlega stórt heimili þar sem báðir foreldrar eru útivinnandi og með stækkandi börn þá getur stundum verið erfitt fyrir yngsta meðliminn að haga sér vel og hlusta á foreldra sína.
Ekki misskilja mig. Yngsta barnið er jafn yndislegt og hin tvö en eftir skóladag og langa daga þá er stundum stutt í pirringin og á morgnana er erfitt að koma sér á fætur og í rútínu.

Í staðin fyrir að vera alltaf að skamma eða tala um neikvæða hegðun ákváðum við að útbúa umbunarkerfi.

Stelpan er mikið fyrir monster high og ákvað ég því að útbúa blað með þeim fígúrum.
Í sameiningu ákváðum við svo hvað það er sem hún vill fá stjörnu fyrir og ákvað hún sem dæmi að lesa heima, vera dugleg að vakna á morgnana og fara sofa með hreint herbergi eru hlutir sem hún vildi fá stjörnu fyrir. Svo var að ákveða hve margar stjörnur hún þyrfti að safna og hvað væri í verðlaun. Við ákváðum að í fyrstu þyrfti hún að safna 20 stjörnum og fengi eina dúkku fyrir.
En já langaði bara að sýna ykkur þetta. Poppaði upp í kollinn þegar ég var að setja niður þessa uppskrift þar sem hún er í miklu uppáhaldi hjá dótturinni, sem kom mér skemmtilega á óvart þar sem hún vill alls ekki borða hnetur en finnst heslihnetur í þessum stöngum mjög góðar ;)


Hafrastangir

140g haframjöl (ég notaði glútenfrítt)
55g hakkaðar heslihnetur
35g saxað sykurlaust súkkulaði
200g möndlusmjör
90g Fibersirup Gold


Blandið þurrefnunum saman í skál. Möndlusmjör og Fibersirup Gold svo bætt út í og blandað vel við.
Ég þrýsti deiginu niður í silikon brauðform og setti svo í kæli í ca 40-50 mín. Tók svo út og skar í lengjur. Geymist í kæli og er snilld til að hafa með þegar maður er á ferðinni ef litlir munnar vilja fá að borða.
Friday, May 6, 2016

Chili sulta


Eina ferðina enn komin helgi. Tíminn flýgur áfram og ég hef varla tíma til að láta mig hlakka til að komast í útilegu í sumar því ég er orðin svo spennt fyrir desember! Já ég er algjört jólabarn ;)

En ég neita ekki að sumarylur og birta er yndislegt þessar nokkrar vikur á ári sem við fáum.

Chili sultan mín er uppskrift sem ég ætla að fara gera og eiga þegar við förum í ferðalag. Ekkert jafnast á við það að vera í íslensku náttúrunni og geta gætt sér á góðum íslenskum ostum með góðri sultu.

Chili sulta


1 rauð paprika
2 rauð chili
80g sukrin gold
1/2 tsk xhantan gum
1/2-1dl hvítvín

Skerið papriku og chili niður í bita og fræhreinsið.
Ef þið viljið sterkari sultu má hafa fræin í.
Setjið í matvinnsluvél eða notið töfrasprota til að mauka.
Setjið í pott ásamt sukrin gold og hvítvíni og látið malla í 15 mínútur.
Blandið við xhantan gum í lokin og hrærið vel saman við sultuna svo hún þykkni.
Geymist í lokaðri krukku í kæli.


Tuesday, May 3, 2016

Heimilisbrauð


Á meðan ég fæ mig til að nenna að taka myndir og færa yfir í tölvuna og koma svo á bloggið er ég með eina af uppáhaldsbrauð uppskriftum mínum.

Auðvelt að útbúa og hrikalega gott með íslensku smjöri og góðri ostsneið :)

Fullt af góðum fræjum og orku og auðvelt að breyta til og prófa sig áfram með þessa uppskrift.
Heimilisbrauð Dísu

45g möndlumjöl
45g kókoshveiti
3tsk vínsteinslyftiduft eða venjulegt
5tsk Husk
30g chiafræ
35g hörfræ
60g sesamfræ
100g rifin ostur
4msk sýrður rjómi
4 egg
1dl heitt vatn
100g sólþurrkaðir tómatar


Bætið þurrefnunum saman í skál. Egg, ostur, sýrður rjómi og vatni bætt við og blandað vel saman.
Skerið tómatana í litla bita og bætið við deigið.
Setjið í silikon brauðform.
Stráið fræblöndu eftir smekk yfir brauðið ef þess er óskað og bakið á  180g í 50-60 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn úr miðju brauðsins.


Tuesday, March 22, 2016

Spínat pestó Dísu


Ég trúi því varla að það sé að koma páskar!
Finnst eins og ég sé nýbúin að taka niður jólin.
Tíminn flýgur áfram eins og alltaf en það sem skiptir máli er að geta notið stundarinnar.
Ég hef getað það heldur betur síðustu mánuði.

Satt að segja finnst mér ótrúlegt hvað lífið hefur breyst hjá mér.
Fyrir ári síðan var ég á fullu í endurhæfingu. Óvinnufær með öllu, gat ekki stundað líkamsrækt og hafði enga orku og já lífið var erfitt. Já það var virkilega erfitt að hafa enga orku, vera verkjaður og geta ekki unnið. Satt að segja bjóst ég ekki við að ég kæmist aftur út á vinnumarkaðinn.

Kannski var þetta líka alveg extra erfitt fyrir konu sem veit ekki hvað þolinmæði þýðir.
Oft var þetta eitt skref framá við og tvö, jafnvel þrjú afturá bak. 
Verst fannst mér sú tilhugsun að geta ekki unnið við það sem ég væri menntuð, sjúkraliðan. Enda er það starf sem virkilega tekur á líkama og sál.

Þannig að í dag finnst mér ótrúlegt að ég sé komin í 100% vinnu við menntun mína, stunda hreyfingu með og get sinnt heimili og börnum vel. Og kannski það besta við þetta er að ég geri þetta allt með bros á vör. Já lífið hefur heldur betur breyst á ekki meiri tíma en þessu.

Það sem ég hef kannski lært mest í endurhæfingunni er að taka hænuskref, ekki ætla mér of mikið í einu. Ég byrjaði fyrst í 50% starfi og fór svo að auka við mig. Svo kom hreyfinginn smátt og smátt og ef ég finn fyrir þreytu þá er í lagi að hvíla sig og láta þvottinn aðeins bíða eftir vinnu.

Maður kann svo mikið að meta þessu smáu hluti eins og að geta farið í vinnuna, göngutúr með fjölskyldunni og já þrifið heima hjá sér þegar maður hefur upplifað það hvernig það er að geta ekki gert þessa hluti.

En já, langaði bara aðeins að skrifa um þetta hjá mér :)
En um daginn ákvað ég að útbúa þetta dýrindis pestó úr því sem ég átti heima.
Það var mjög vinsælt hjá vinnufélögunum og ófáir búnir að fá uppskriftina hjá mér.

Myndin er ekki upp á marga fiska en ég lofa að bragðið er mjög gott :)


Spínat pestó Dísu


125g spínat (fjarlægi stilkana)
75g möndlur. Var með hýðið á mínum
100g fetaostur (notaði fetaostakubb frá MS)
60ml góð olífuolía
2 hvítlauksgeirar
pipar eftir smekk.

Setjið möndlur og spínat í matvinnsluvél og maukið vel saman.
Því næst er restinni af hráefninu sett út í og blandað.
Smakkið til með piparinn.

Pestóið er best þegar það hefur fengið að sitja aðeins í kælinum eða eftir ca. sólahring.

Wednesday, January 20, 2016

Svartbauna brownies


Vikan hálfnuð og styttist því í helgina. Aftur!
Ég reyndar sit núna í sófanum með fætur upp á skemli og passa að hreyfa ekki hægri fótinn of mikið.
Ég er snillingur þegar kemur að því að meiða mig.
Ég einhvern vegin náði að togna á vöðva (held allavega að það sé tognun, fer til doksa á eftir) á meðan ég sat í sófanum í gærkvöldi að horfa á fréttir. Stóð upp og gat ekki stigið í fótinn.
Var svo viss um að þetta myndi lagast í nótt en neibb, kona var eins og 100 ára og bað börnin að aðstoða sig að ná í hluti sem voru á gólfinu eða neðarlega í skúffum.

Ég er því heppinn að eiga þessar brownies í frystinum og geta fengið mér með rjóma.
Þegar þær koma heitar úr ofninum eru þær svoooo góðar og mjúkar. Þær eru ekkert verri kaldar og smakkast þá vel með rjóma og ferskum berjum.

Það er örugglega einhverjir sem gretta sig þegar þeir sjá orðið svartbaunir sett við hliðin á brownies en ég lofa, þetta virkar!

Reyndar er deigið svo gott og þykkt að það er alveg hægt að sleppa því að baka það og bera fram sem súkkulaðimús.Svarbauna brownies.

1 dós svartar baunir
3 meðal stór egg
5 msk kókosolía (var með bragðlausa)
150g Sukrin Gold
55g ósykrað kakó
1,5tsk vanillu essence eða dropar
1/2tsk vínsteinslyftiduft eða glútenlaust lyftiduft
100g saxað sykurlaust súkkulaði (valfrjálst)
Ef þið viljið glúten og sykurlaust súkkulaði mæli ég með IQ súkkulaðinu.

Sigtið bauninar og skolið vel.
Setjið í blandara ásamt eggjum og blandið vel saman. Bætið við restinni af hráefnunum (fyrir utan súkkulaði) og blandið vel. 
Saxið súkkulaði niður og bætið út í og blandið með sleif.

Setjið bökunarpappír í eldfast mót, mitt var 20x28 cm og setjið deigið í.
Smyrjið því jafnt út og bakið á 180 gráður í 30-35 mínútur.Monday, January 18, 2016

Innbökuð súkkulaðiplata


Kona var í miklu baksturstuði um helgina. Ég er enn í miklu baksturstuði en áður en ég baka meira þá er kannski best að setja inn uppskriftirnar af því sem er nú þegar búið er að mynda.

Innbökuð súkkulaðiplata, hljómar vel ekki satt?
Smakkaðist ekki verra, nýbakað og volgt og með bráðnu súkkulaði inn í. Namm!


Uppskrift.

150g rifin Mozzarella ostur
1 egg 
5msk Sukrin Gold
1msk Hnetumjöl frá Funktjonell

Bræðið ostin í potti á miðlungshita og passið að hræra vel í á meðan með sleif.
Þegar osturinn er bráðnaður takið af hellunni og bætið við eggi, mjöli og Sukrin Gold og blandið vel saman.
Það er smá þolinmæðisvinna að blanda þessu saman við ostin og gott að setja pottinn yfir heitu helluna til að hita ostin smá til að geta blandað öllu vel saman.

Rúllið út deiginu á milli tveggja bökunarpappírs arkaSetjið súkkulaðiplötuna í miðjuna.


Skerið með pizzuskera eða hníf með fram súkkulaðinu eins og á myndinni.


Fléttið deiginu saman utan um súkkulaðið.


Pennslið með pískuðu eggi og stráið heslihnetuflögum yfir.
Bakið á 200 gráðum í ca 15-18 mín eða þar til gyllt.

Borðið heitt/volgt ;)


Friday, January 8, 2016

Laukhringir

Í byrjun árs eru margir sem fara að huga að heilsusamlegri mataræði.
Ég er engin undantekning á því.
Ég er eins og svo margir aðrir, berst við það að halda jafnvægi í mataræði og hreyfingu.
Stundum gengur það alveg ótrúlega vel, sem er meirihluti ársins en svo koma tímar sem ég dett í sukkið. 

Þessi uppskrift af laukhringjum er mjög vinsæl hjá öllum á heimilinu.1 laukur (stundum nota ég rauðlauk)
1 egg
möndlumjöl
hvítlaukssalt
pipar
3msk rifin parmesanostur


Skerið laukinn í sneiðar og losið hringina frá hvor öðrum.
Pískið eggið og kryddið blönduna örlítið með kryddi eftir smekk.

Setjið rifin parmesanost, möndlumjöl og hvítlauksalt í skál.
Setjið laukhringina í eggið og látið svo í möndlumjölið. Passið að möndlumjölið hylji allan laukinn.

Dreifið á bökunarpappír og passið að hringirnir liggi ekki ofan á hvor öðrum.

Bakið á 200 gráðum í 15-20 mínútur eða þar til gylltir.

Frábært snakk eða sem meðlæti.