Tuesday, July 30, 2013

Kjötbollur með mozzarella osti og ítalskri sósu

Ég hef verið ansi dugleg að setja inn kökur og eftirrétti og því kannski við hæfi að koma með uppskrift af góðum kvöldmati svo fólk fari ekki að klóra sér í hausnum og halda að ég borði bara karamellur og kökur í öll mál ;)

En áður en ég fer í uppskriftina langar mig að segja frá því afhverju ég ákvað að fara að elda og baka samkvæmt LKL. Á síðasta ári hef ég verið mjög þreytt og með verki í líkamanum og var ég svo slæm að ég var hætt að geta unnið í vinnunni síðasta sumar, en ég var að vinna á bráðamóttökunni og þar var ég mikið á hlaupum. Ég fór í allskonar rannsóknir til að finna út hvað væri í gangi, sneiðmyndataka, röntgen, ómskoðun og blóðprufur. Á þessu ári fékk ég svo að heyra frá lækninum að líklegast væri þetta vefjagigt og ekki mikið hægt að gera í því. Eftir að hafa lesið mig til á netinu sá ég að mataræði getur haft áhrif á gigt svo ég ákvað að prófa að taka út hveiti og sykur og minnka kolvetnin enda mjög háð einföldum kolvetnum og á það til að gúffa í mig eftir kvöldmat þegar blóðsykurinn fór af stað. Með því fylgir náttúrulega að síðustu aukakílóin mín sátu sem fastast.

Eftir að ég byrjaði að minnka kolvetnin þá hef ég ekki fengið þessa verki, ég sef betur, þarf minni svefn og finnst líka yndislegt hvað ég næ að halda blóðsykrinum stöðugum og er ekki á sífellu narti. Mataræði hjá mér hefur ekki breyst mikið fyrir utan að brauð, pasta, grjón, sykur og hveiti tók ég út. Ekki skemmir að ég er hægt og sígandi að nálgast aftur mína fyrri þyngd og cm hverfa með því :) Ég get hætt að borða þegar ég er södd í stað þess að fá mér meira á diskinn, bara vegna þess að maturinn var svo góður og ég verð að fá meira (þó ég væri pakksödd). Ég borða líka mun meiri af grænmeti en ég gerði, hef alltaf verið grænmetis gikkur en með því að skoða girnilega uppskriftir er blómkál, tómatar, paprika, zucchini og salöt eitthvað sem ég elska að borða. Ég borða alveg kolvetni, ég bara passa mig í dag hvaðan ég fæ þau. Og að baka án þess að hafa sykur og hveiti er himnaríki :) Ég þarf ekki að hafa samviskubit að baka fyrir börnin mín í miðri viku þar sem ekkert í þeim hefur áhrif á heilsu eða tennur þeirra :)

En nóg um þetta, tölum um kjötbollurnar :) Ljúffeng og góð uppskrift sem ég fann á netinu og breytti aðeins, og það besta, allir borðuðu af bestu lyst! Það gerist ekki oft að fá alla til að borða það sem er í matinn, yfirleitt er einn einstaklingur (mismunadi hverju sinni) sem finnst eitthvað að matnum.


Kjötbollur
7-800 g nautahakk
1 egg
1 lúka af fersku og fín söxuð basilika
2 tsk oregano krydd
1-3 hvítlauksgeirar, fín hakkaðir
1,5 dl rifin parmesanostur
1 tsk nautakraftur
salt og pipar eftir smekk.
Mozzarella ostur Öllu blandað vel saman í skál og búnar til stórar bollur. Bollurnar brúnaðar á pönnu með smjöri eða olíu.

Sósa
Tvær dósir af hökkuðum tómötum.
Fínhökkuð basilika eftir smekk
1 msk oregano krydd
2 msk olía
3 hvítlauksgeirar saxaðir
50 g rjómaostur
salt og pipar eftir smekk


Sett í pott og látið malla í 15 mín. Ég notaði svo töfrasprota til að mauka tómatana alveg niður svo það yrði pottþétt að engin börn myndu kvarta ;)

Hita ofn á 200 gráður
Setja sósu í eldfast mót, bæta bollunum út í, hella restinni af sósunni á bollurnar og setja svo góða sneið af mozzarellaosti ofan á bollurnar. Setja í ofnin í ca 10 mín eða þar til osturinn er bráðin. Gott með heimagerðu lkl vænu hvítlauksbrauði eða soðnu brokkolí. 

P.s var of gráðug að borða matinn heitann svo myndirnar voru bara teknar á símann í þetta sinn.


Friday, July 26, 2013

Möndlukaka með unaðslegu kremi


Fann uppskriftina í gömlu sænsku tímariti og varð að prófa. Var ekki fyrir vonbrigðum með þessa og var hún fljót að klárast. Botn
5 dl möndlumjöl
6 eggjahvítur
1-2 msk sukrin eða önnur sæta. Smakka til

Þeyta eggjahvítur þar til stífar. Bæta við sykrinum og í lokin blanda möndlumjöli varlega við. Skipt í tvennt og sett á bökunarpappír og búið til hringbotn sem er ca 20 cm í þvermáli. Bakað við 150 g í 20 mínútur.

Krem
6 eggjarauður
1,5 dl rjómi
1 dl sukrin eða önnur sæta
150 g smjör
nokkrir dropar af vanilludropum (valfrjálst)

Rjómi, rauður og sykur sett í pott og hrært í við meðal hita. Þegar þykkir í þá er tekið af hitanum og smjör bætt við. Passa að hræra allan tíma í pottinum. Sett í kæli í minnsta kosti tvo tíma til að þykkja kremið.


Skreytið með ristuðum möndluflögum eða jafnvel nota bláber eða jarðaber. Kakan er líka góð ein og sér. Reiknast að net carb í allri uppskriftinni sé 14,5 gSunday, July 21, 2013

Croque Monsieur


Croque Monsieur er frönsk samloka með mikið af osti og hrikalega djúsi og góð. Prófaði að gera lkl væna útgáfu og mmmm. Tilvalið til að fá sér í hádeginu um helgar.

uppskrift (fyrir 3)
5-6 egg fer eftir stærð
1 msk rjómi
2 dl möndlumjöl
2,5 dl rifin ostur
2 msk husk
1/2 tsk salt
1,5 tsk lyftiduft
Krydd eftir óskum (gott að setja hvítlaukssalt eða oregano í deigið)
ofn hitaður á 190 g.
Egg pískuð vel saman. Í aðra skál eru þurrefnum blandað vel saman og síðast er eggin og rjómi bætt út í. Leyfa þessu að standa í fimm mínútur.
Gott að bera smá olíu á bökunarpappír til að auðvelda þegar brauðið er tekið af eftir bökun. Brauðið á að vera þykkt og best að dreifa úr því 20*30 eða eins og á myndinni. Passa að dreifa jafnt úr því.
Eldað í ofni í 15-20 mín. Fer eftir ofnum. 
Látið kólna, skerið enda af og skerið svo í sex jafna bita.

Smyrjið brauðið með smjöri og setjið skinku og ostsneið á. Ég set vel af osti og tvær skinkusneiðar. Steikt á pönnu á meðalhita með olíu þar til ostur er bráðnaður. 

Gaf mér ekki tíma til að taka almennilega mynd af samlokunni þar sem hún var of djúsí. Einnig fyrir þá sem vilja egg er hægt að búa til Croque Madame en það er sama útgáfa nema búið er að bæta eggi við.Sunday, July 14, 2013

Mozzarella stangir


Ég elska að fá góðar Mozzarella stangir og hef saknað þeirra pínupons. Ég er núna um helgina því búin að prófa mig áfram með góða uppskrift og hef fundið það sem mér finnst vera mjög góð, reyndar það góð að ég fæ ekki að eiga ein því börnin borða þær með bestu lyst.

Mozzarella stangir

1 egg
1 poki mozzarella ostur
hvítlaukssalt
steinselja
1 poki af fínrifnum parmesan osti og/eða möndlumjöl
Olía til steikingar


Egg hrært í skál með hvítlaukssalti og smá steinselju sem er búið að skera niður.
Í aðra skál er sett parmesan/möndlumjöl. Gott er að blanda möndlu og parmesan saman eða vera með bæði og setja í sitthvora skálina.

Mozzarella er skorin í bita og dýft í egg og svo í parmesan. Gott er að dýfa ostinum aftur í eggið og svo í möndlumjölið til að fá stökka húð. (Einnig hægt að nota bara parmesan eða möndlumjöl og dýfa tvisvar í tegund sem kosin er)

Trikkið núna er að þjappa húðina á stönginni vel að til að þettja og raða á plötu eða disk og setja í frystinn í klukkutíma. Ástæða fyrir þessu er að ef hann er strax steiktur þá verður osturinn þurr og bráðnar fljótar. Með þvi að setja hann í frysti þá verður hann mjúkur og safaríkari eftir steikun.

Setti stangirnar mínar í bökunarform og inn í frysti í klt.

Passa þarf að olía á pönnu sé mjög vel heit áður en osturinn er settur á og þá meina ég mjööööög vel heit. Steikt þar til gullinbrúnt á öllum hliðum. Gott að setja stangirnar á eldhúspappír eftir steikingu til að taka afgangs olíu svo þær verða ekki of blautar. Borið fram með salsa sósu eða að gera góða ídýfu úr majónesi, hvítlauki og paprikudufti. Er mjög góð :) Smakka bara til þegar búið til.


Carb talning í þessu er mjög lítil og því kjörið kvöldsnarl :)Friday, July 12, 2013

Súkkulaðikökur

Síðasta fimmtudag var sumarfríið formlega hafið með heimkomu Grænlandsfarans sem hefur verið í burtu í sjö vikur. Það er alltaf mikil kæti fyrir börnin að fá pabba heim, hvað þá þegar brunað er beint í bústað frá flugvellinum.

Sumarið ákvað samt sem áður að koma ekki strax svo eftir góða helgi í bústað tók við málun á íbúðinni og að kaupa loksins húsgögn inn í hjónaherbergi eftir 5 ára bið :-) Ekki mikill tími sem hefur farið í eldhúsið en þessar kökur eru fljótgerðar og börnin elska þær. Þær eru þurrar og einstaklega góðar með kaffinu :-)Súkkulaðikökur 
20-25 stk

3 dl möndlumjöl
2 msk kókoshveiti
3 msk sukrin eða sukrin gold
2 msk rjómi
2 msk kakó
1 egg
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar

þurrefnum blandað saman og svo restinni. Blandað vel saman og gerðar litlar kúlur sem settar eru á bökunarpappír. Bakað í ofni í 8-10 mín á 175 gráður.


Þessar duga yfirleitt mjög stutt hér heima.

Langar að henda inn einni mynd af disknum sem kökurnar eru á. Amma minn er mikil listakona í sér og bestu gjafirnar eru frá henni, hvort sem það er prjón, glerverk, málað postulín og allt þar á milli. Mér þykir mjög vænt um þennan disk þar sem mýsnar tákna börnin mín þrjú :)
Monday, July 1, 2013

Mojito og súkkulaði parfait

Í gær var veðrið yndislegt. Sólin kom loks til Reykjavíkur, börnin léku úti í vatnsstríði, fuglarnir sungu og lífið var bara dásamlegt. Eftir mikla útiveru í sólinni þá langaði mig í eitthvað svalandi að drekka, og þar sem ég er í sumarfríi mátti alveg vera smá dass af alkahóli í drykknum. Eftir að hafa legið aðeins á internetinu að finna réttu LKL lausnina ákvað ég að prófa sjálf og óboj óboj hvað þetta var svalandi :) Ég ælta að skella aftur í Mojito um helgina í bústað.

Mojito fyrir fjóra (eða einn sem vill fjóra drykki)

Sýróp, bjó það til úr vatni og sukrin gold. Verður þunn blanda

2 dl vatn
0,5 dl sukrin gold

Sett saman í pott og látið suðu koma upp. Tekið af hellunni og látið kólna.


12-16 st matskeiða af sýrópi
16 cl romm
2 lime
fersk mynta
Sprite Zero eða kristal Lime
Klaki


Lime skorin niður í fjóra bita og deilt niður í glösin. Romm og sýróp sett í glösin ásamt smá af mintu. (sjálf setti ég milli 8-10 blöð í hvert glas) Þessu er svo malað saman þar til lime safi er komin vel úr og mynta smá maukuð. Fyllt á glasið með sprite eða sódavatni og í lokin er settur klaki út í. Súkkulaði parfait

Stundum þá langar mig í eitthvað voðalega djúsi og gott. Hef búið til nokkra súkkulaðibúðinga sem ég hef ekki verið nógu ánægð með. Fann þessa uppskrift og ákvað að skella í hana og sé ekki eftir því. Það voru slagsmál í eldhúsinu hver fengi að sleikja úr skálinni og vonda mamman ég hafði vinninginn. Það er bæði hægt að borða þennan búðing strax með þeyttum rjóma og minnir á Royal búðing bara betri ;) eða setja í frysti og leyfa að harðna. Þessi uppskrift dugar fyrir 2-4, eftir því hvað fólk vill borða mikið en eins og mér fannst hann góður þá varð ég fljótt södd.

Uppskrift

50 g dökkt súkkulaði 70%
2 dl rjómi
2 msk sukrin melis
2 eggjarauður
1 tsk vanilludropar
1-2 msk appelsínusafi
1/2 gelatínblað

Bræða súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna

Gelatín látið í kalt vatn ekki minna en 5 mín. Kreysta vatn úr gelatíni og það brætt í potti með 1 msk af vatni

Þeyta rjóma

sukrin, eggjarauður og vanilludropar þeyttir vel saman. 

Súkkulaði blandað við egg og sykur, síðan rjómi og gelatín bætt út í og blandað vel saman. Síðast er gelatínið og appelsínusafi blandað við.

Annað hvort sett í skál strax og borðað með þeyttum rjóma eða setta í form og inn í frysti í 1-2 klt.
Ég setti inn uppskrift um daginn af Baby Ruth áður en sukrin var komið í Krónuna og þurfti að búa til súkkulaði krem á kökuna. Þar sem sukrin melis er komið þá er hægt að gera uppskriftina eins og hún á að vera með eggjarauðum, súkkulaði og flórsykri :)