Monday, September 30, 2013

Vanillubúðingur

Það er alltaf jafn yndislegt þegar öll fjölskyldan er sameinuð hjá mér. Það getur verið flókið þar sem bóndinn vinnur á Grænlandi og elsti sonurinn býr á Húsavík. En þegar það gerist þá er það æði. Verst er það að flug til og frá Grænlandi er meira og minna upp á heppni þar sem oft er ófært vegna veðurs. Nú var það ekki rokið sem hélt bóndanum frá því að komast heim í einn og hálfan sólahring heldur þoka. Þessi bið er mér ótrúlega erfið þegar búið er að telja niður vikur, daga, klukkustundir og mínútur og börnin, já þeim finnst það ekki neitt gaman. 

Hinsvegar er alltaf gaman að fá pakka :) Börnin fá yfirleitt föt núna enda nóg af dóti til og ég fæ eitthvað sætt sem er ekki hægt að fá hér heima. Bóndinn og félagar hans hafa verið að vinna fyrir eina Grænlenska listakonu og fékk hann að gjöf styttur frá henni. Ekki var svo verra þegar hann keypti handa mér armhlífar prjónaðar úr Grænlenskri sauðnauts ull. Já sauðnauts ull. Mýkra ull hef ég ekki komist í kynni við og það besta, stingur ekki! Nú býð ég eftir að hann fari aftur út (jahh, svona næstum því) svo hann geti keypt handa mér meira af vörum frá þessari listakonu :) Reyndar þarf ég sjálf að fara koma mér út í helgarferð til Nuuk og skoða og kynnast því lífi sem maðurinn minn er búinn að byggja sér upp þar.


Vanillubúðingur

 2 eggjarauður
1 msk sukrin melis
1/2-1 vanillustöng
1,5 dl rjómi

Rauður, sukrin melis, fræ úr vanillustöng þeytt saman.
Rjómi þeyttur.
Öllu blandað saman og sett inn í ísskáp í 30-60 mínútur.

Einfaldur, góður og seðjandi. Myndi segja að þessi sé fyrir2-4, eftir því hversu mikill græðgi ræður ferðinni ;)
Gott að setja fersk ber, berjamauk, chia sultu eða karamelluna héðan af blogginu á búðinginn.

Net carb í allri uppskriftinni er undir 5g.

Ætla að minna á facebook síðuna mína, Dísukökur, hægt að like-a hana og fylgjast með nýjum uppskriftum sem koma inn :) linkur hér fyrir neðan


Tuesday, September 24, 2013

Piparkökur

Ég var búin að ávkeða að reyna búa til piparkökur sem væru lkl vænar fyrir jólin en var alls ekki komin í þann gír. En svo var ég með strákinn minn á körfuboltaæfingu í dag og þar finnst mér gaman að sitja með litlu stílabókina mína og hugsa um uppskriftir. Þá datt þessi uppskrift í hausinn og ég gat að sjálfsögðu alls ekki beðið með að prófa hana því ég er búin að þrá að fá mér kalda mjólk og piparköku í nokkurn tíma.

Þetta var svo auðvelt, enda grunnuppskriftin löngu komin á bloggið, eina sem ég þurfti í raun að gera var að taka út kakóið og bæta við piparköku kryddum.
Piparkökur

3 dl möndlumjöl
2 msk kókoshveiti
3 msk sukrin eða sukrin gold
2 msk rjómi
1/4 tsk negull
1/2 tsk kanill
1/4 tsk engifer
1 egg
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanilludropar

þurrefnum blandað saman og svo restinni. Blandað vel saman og gerðar litlar kúlur sem settar eru á bökunarpappír. Bakað í ofni í 8-10 mín á 175 gráður. 

Það var ekki leiðinlegt að setjast niður með börnunum áðan við kertaljós, tónlist, kalda mjólk (já ég lét eftir mér smá mjólk en hægt að hafa laktósfría eða möndlumjólk) og piparkökur. Ég ætlaði reyndar að hafa kósý í kvöld og fá mér smá yfir sjónvarpinu en þær voru fljótar að klárast og verð bara að gera meira fljótlega. Ég náði heldur ekki betri mynd af kökunum því þrjú börn biðu mjög spennt eftir að gæða sér á þeim og það var ekki þolinmæði til fyrir myndatöku.


Sunday, September 22, 2013

Heimagert súkkulaði

Súkkulaði, ég þarf varla að skrifa meira er það nokkuð?
Ég elska súkkulaði. Og að gera það alveg frá grunni og vita nákvæmlega hvað er í því er æði og alls ekki eins erfitt og ég bjóst við. Ef þú ert fyrir dökkt súkkulaði mæli ég með þessu. Ef þú hinsvegar vilt frekar mjólkursúkkulaði sem er sætt og rjómakennt þá ættiru samt að prófa þetta en  ég er ekki viss um að þetta sé fyrir þig ;) Súkkulaðið á myndinni er í raun litlir munnbitar. Keypti silikon from í Allt í köku til að nota þar sem súkkulaðið verður svo fallegt og hver biti hæfilegur.


Súkkulaði


1/2 bolli kakósmjör smátt skorið
1/2 bolli kókosolía
1/4-1/2 bolli kakóduft, var sjálf með Green & black
1/4 bolli sukrin melis
hakkaðar möndlur
chili duft
salt


Kakósmjör og kókosolia brædd í potti á lágum hita. Gott að hræra reglulega í.
Þurrefnunum blandað saman í skál og kakósmjör og kókosolia bætt svo við. Hræra vel saman, getur tekið smá stund að fá melisinn til að blandas almennilega. Möndlur, chili og salt sett í eftir smekk hvers og eins. Gott að smakka til. Setja súkkulaðið í form og inní ísskáp í ca klt. Fer eftir forminu og hversu þykkt súkkulaðið er. Geymist svo í ísskáp. Hægt er að sleppa chili og möndlum og hafa súkkulaðið hreint eða setja aðrar hnetur frekar eða krydd. Allt eftir smekk.

Monday, September 16, 2013

Sörur


Ég hef ekki þorað að setja þessa uppskrift inn fyrr en núna. Sörur eru hjá mörgum heilagar og ómissandi um jól og hef ég verið nokkuð stressuð með uppskriftina og hvort fólk myndi vera ánægt með hana. Eftir að hafa látið þónokkra smakka á þeim og fengið góða einkunn þá ákvað ég að tíminn væri komin. Þetta er búið að vera smá vesen að útbúa þessar sörur. Hélt í sakleysi mínu að það væri bara hægt að nota sukrin vörurnar í stað sykurs í sömu hlutföllum, en nei virkaði ekki. Svo ég er búin að gera sörurnar þrisvar sinnum og þriðji skammturinn heppnaðist. Ég reyndi að útbúa blessaða sírópið sem notað er í sörukremið en það var bara ekki hægt að gera síróp úr surkin. Hinsvegar prófaði ég að nota vatn, sukrin og smá xanthan gum til að útbúa sírópið og það virkaði vel, smá vesen en ákvað svo að það væri alveg óþörf í þessa uppskrift.

Þær eru kannski ekki alveg eins og hinu einu sönnu sörur en komast nálægt því.

Sörur


Botn

3 eggjahvítur (stofuhita)
1 dl sukrin melis
70 g möndlumjölEggjahvítu, sukrin og stevia þeytt saman þar til orðið stíft. Möndlumjölið er varlega bætt við og blandað með sleif. Sett á bökunarpappír með skeið eða setja í sprautupoka og sprauta. Það verða ca 20 kökur úr þessari uppskrift og þær stækka ekki í ofninum. Sett í ofn sem er 130 gráður heitur (ekki með blæstri) og bakað í 40 mín.

Krem
1 dl sukrin melis
3 eggjarauður
100 g mjúkt smjör
2 tsk kakó
2 tsk insta kaffi

Öllu blandað vel saman.

Krem er sett á kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar. Gott að nota skeið og gera "fjall" úr kreminu. Kökurnar settar í frysti og svo þegar kremið er orðið vel kalt er það bara að dýfa þeim ofan í bráðið súkkulaði :)


Saturday, September 14, 2013

Þurrkaðar ávaxtarúllur

Hafi þið lent í því að hvítlaukur springi hjá ykkur? Nei? Ég hef lent í því og það er ekki skemmtilegt. Var með heilan kínverskan hvítlauk í ofninum eitt kvöldið með kjúklingnum og tók út eftir ca hálftíma í ofni. Allt í einu heyri ég popp og hvítlaukurinn er horfinn. Eða ekki beint horfinn, hann var í loftinu, borðinu í eldhúsi og borðstofunni, á veggjum, gluggum, ísskápnum, gólfinu og já hárinu á mér. Fyrst hló ég þegar ég sá bara borðið en fór að gráta þegar ég leit upp í loft og á veggina.

Fátt finnst mér skemmtilegra en að útbúa eitthvað hollt og gott fyrir börnin mín sem þau elska. Þau hvetja mig áfram að prófa mig í eldhúsinu og eru dugleg að segja mér satt ef þau eru ekki hrifin af einhverju. Þessa helgina er ég extra heppinn því öll þrjú börnin eru hjá mér en elsti sonur minn flutti til pabba síns fyrir tveimur árum og varð ég helgarmamma. Hann býr fyrir norðan og kemur því ekki aðra hverja helgi en hann er duglegur að eyða fríum hjá mér og við hringjumst á oft á viku. Það er yndislegt að sjá hvað systkini hans verða glöð þegar hann kemur úr flugvélnni og sjá þau hoppa í fangið á honum. Það er bara þannig að fjölskyldan er ekki alveg heil þegar hann er ekki hjá okkur. En hann er sáttur hjá pabba sínum og blómstrar þar og er ótrúlega heppinn að hafa föðurfjölskylduna alla mjög nálægt og að geta ræktað það samband svona vel.Ávaxtarúllur
Þetta er í raun ótrúlega auðvelt að gera og þarf bara smá þolinmæði. Gott að taka dag eða kvöld þar sem maður er heima í rólegheitum.

Það sem þarf er jarðaber frosin eða fersk og ef fólk vill sæta þau aðeins er hægt að setja sukrin melis eftir smekk.

Jarðaberin eru maukuð.
Ofninn stillur á 80 gráður
Jarðaberjamauk er dreift á smjörpappír, silikon mottu eða þá böknarpappír sem er búið að spreyja með pam spreyi. Pam spreyið er algjört möst ef á að nota bökunarpappír því annars festist maukið bara á og ekki hægt að losa.


Dreifa maukinu á pappírinn og passa að hafa hann ekki of þunnan. Sett í ofninn og látið vera þar í 2,5-3,5 klukkutíma. Fer allt eftir ofnum og svo finnst mér líka mismunandi eftir jarðaberjum hve langan tíma þetta tekur. Þú veist að hann er tilbúin þegar þú kemur við maukið og það festist ekki við þig. Ef þú ert að gera þetta og þarft að skreppa út úr húsi þá er í lagi að slökkva á ofninum, leyfa þessu að vera þar og kveikja aftur þegar þú kemur heim.


Þegar þetta er tilbúið er varlega dregið af pappírnum og settur á hreinan bökunarpappír. Neðri hliðin getur verið klístruð. Klippt í lengjur og rúllað upp. Hægt að geyma í góðri krukku á borðinu en ég sett mitt í box inn í ísskáp. Þetta endist ekki lengi hér heima. Hægt er í raun að nota hvaða ávexti sem er. Enn sem komið er ég bara búin að prófa jarðaberin en á klárlega eftir að prófa mangó, kíví og bláber fljótlega.


Í gærkvöldi prófuðum við krakkarnir að gera súkkulaði alveg frá grunni með kakósmjöri og ómæ ómæ það var ljúffengt. Þeir sem eru fyrir dökkt og ósætt súkkulaði bíðið bara! Wednesday, September 11, 2013

Jarðaberja chia ís

Eins og ég skrifaði um daginn, fall er fararheill og ég held mig við það. Þrátt fyrir að þjást og sofa illa vegna verkja þá varð ég heppinn í vikunni þar sem ég vann 50 þúsund kr gjafabréf í Smáralindina! Ég, sem aldrei vinn neitt! Fyrsta sem ég hugsaði var SKÓR! Vantar skó, en vantar þá kannski ekki, frekar langar í. Svo ég hugsaði aðeins meir og jú. Það eru að koma jól, og mig er búið að langa hrikalega mikið í George Jensen kertastjaka úr gulli til að nota sem aðventukrans og svo auðvitað er nýr jólaóri frá sama framleiðanda komin. Svo ég ætla fljótlega að gera mér leið í Smáralindina og kaupa mér þetta tvennt. Valkvíðinn heldur svo áfram með restina af gjafakortinu en ætli börnin fái ekki eitthvað dekur frá móður sinni.

Ég ákvað í fyrradag að opna like síðu á facebook vegna fyrirspurnar og ég er eiginlega bara orðlaus yfir viðtökunum! Yfir 1000 like og talan hækkar örlítið með hverjum degi. Það er virkilega gaman að sjá áhuga hjá fólki yfir því sem ég er að gera. Takk fyrir segi ég nú bara! 


En nóg um það. Jarðaberja chia ís var ég búin að nefna og veit að það er beðið eftir þessari uppskrift. Eftir að ég keypti chia fræin var ég ekki viss hvað ég ætti að nota þau í en svo eftir að hafa skoðað netið sá ég að möguleikarnir eru endalausir og að setja hann í ís í stað eggja er snilld! Veit að ísgerð getur verið erfið fyrir þá sem eru með eggjaofnæmi en hér er komin lausn. Og ekki nóg með það, þá gera chia fræin ísinn chruncy í áferð eins og það séu hnetur í honum og ekki finnst mér það verra.
Jarðaberja Chia ís

1 bolli jarðaber
350 ml rjómi
chia 3 msk
vatn 10 msk
sukrin melis 1/2 bolli
Chia fræin eru sett í vatn og látin liggja í ca 30 mín.
Chia fræin eru sett í skál og maukuð smá með töfrasprota.
Öllu hráefninu blandað saman og maukað þar til sættanleg áferð fyrir hvern og einn er komin.
Sett í frysti í nokkra klt. Gott að hræra í ísnum nokkrum sinnum.

Hægt er að borða ísinn strax eftir maukun og hafa sem búðing.

Að nota chia fræ í stað eggja

1 msk chia fræ + 60 ml vatn/mjólk og látið liggja í 5 mínútur = 1 EGG

Monday, September 9, 2013

Jarðaberja sulta með chia fræjum


Yngri sonur minn elskar jarðaber í öllum formum. Jarðaberja sulta, hrein jarðaber, jarðaberjaís og bara allt sem inniheldur jarðaber. Hann velur frekar fersk jarðaber í laugardagsnammi en nammipoka. Sultur, hann elskar líka sultur og að fá sér brauð með sultu gerist varla betra í hans augum. Hinsvegar er mamma hans búin að vera frekar leiðinleg að kaupa ekki sultur upp á síðkastið. Ég reyndi í fyrra fyrstu tilraun mína í sultugerð. Hann varð ekki hrifin. Svo uppgvötaði ég chia fræ. Maukuð jarðaber og chia fræ, það gat bara ekki klikkað. Og þar sem mamman er en slæm í baki eftir að hafa fallið þá mátti þetta ekki taka langan tíma í eldhúsinu og viti menn, ljúffeng sulta á 5 mínútum og barnið......já barnið elskar sultuna :)En áður en ég skrifa uppskriftina langar mig að segja aðeins frá chia fræjum. Textinn er tekin af síðunni heilsubot.is

Chia fræin er ein kraftmesta, hentugasta og næringarríkasta fæðan á markaðinum í dag. Þau eru frábær uppspretta af andoxuefnum, heilpróteinum, vítamínum og steinefnum. Þau eru einnig ríkasta plöntuuppsretta omega 3 fitúsyra sem vitað er um.

Einn af hinum miklu kostum chia fræja er það hversu mikið vatn þau geta innibyrgt eða um 9 falda þyngd sína á innan við 10 mínútum. Þessi hæfileiki gerir það að verkum að vökvabúskaður líkamans verður meiri og varir í lengri tíma. Með chia fræjum þá varðveituru meiri raka og stjórnar frekar upptöku líkamans á næringarefnum. Vegna þes hve mikið af vatni fræjin drekka í sig og hve hátt hlutfall af vatnsleysanlegum trefjum þau innihalda þá eru þau kjörin til þess að stjórna betur kolvetnaupptöku líkamans. Fræjin gera það að verkum að umbreyting kolvetna í sykur í líkamanum verða hægari sem leiðir til þess að orkan varir lengur og sveiflur í blóðsykri verða minni. 


Jarðaberja sulta með Chia


1 bolli jarðaber fersk eða frosin
1 msk chia
1 msk heitt vatn
2 tsk sukrin melis má sleppa
1 msk sítrónu safi

Allt sett í skál og blandað með töfrasprota eða nota aðrar græjur sem henta. Ég sjálf notaði tupperware saxarann minn.

Þegar búið er að blanda setja í krukku og loka og inn í ísskáp. Auðvelt ekki satt? Ef ykkur finnst sultan of þunn er hægt að bæta hálfri tsk af chia í viðbót til að þykkja hana. Þessi uppskrift passaði í eina dijon sinneps krukku.Alexander Gauti var ekki lengi að smakka sultuna og krukkan verður kláruð með þessu áframhaldi í vikunni.


Saturday, September 7, 2013

Jógúrt búðingur

Fall er fararheill er stundum sagt. Já ég vona. Ég get verið óttalegur klaufi og var það í vikunni þegar ég náði að detta í tröppunum heima og hálf skemma á mér bakið. Þá er ekki hægt að standa lengi í eldhúsinu og dúlla sér. Ég var samt búin að lofa einhverju góðu gúmmelaði með sjónvarpinu í kvöld og hvað á að taka til bragðs? Jú ég átti sykurlaust jarðaberja jello og ákvað að kaupa grískt jógúrt og gera búðing fyrir börnin. Þetta tók mig innan við tíu mínútur.

Þó jello-ið sé sykurlaust er allskonar efni í því og er ég ekki neitt rosa hrifin af því frá hollustu hliðinni en stundum, já stundum þá lætur maður það duga og útkoman var bara ljómandi góð satt að segja og fínt að nota hana einstaka sinnum.Jógúrt búðingur

1 pakki sykurlaus jello
1 dolla grísk jógúrt
2 tsk vanilludropar


Jógúrt og vanilludropar blandað saman vel í skál. Jello bætt út í og hrært í vatnsbaði þar til jello sykurinn er alveg uppleystur. Sett í muffinsform og inn í ísskáp í 30-60 mín.
Gott að bera fram með smá þeyttum rjóma.