Tuesday, November 26, 2013

Uppskriftarbæklingur fyrir jólin


Jæja þá er ýmislegt búið að vera í gangi hjá mér síðustu daga. Ég fékk þá flugu í hausinn hvort það væri nú ekki gaman að útbúa lítinn bækling. Hafði samband við vin minn í auglýsinga bransanum og spurði hvort það væri eitthvað idiot proof forrit á netinu sem ég gæti notað og dúllað mér við.
Neinei ég skal bara gera þetta var svarið! Maður með þrjú fyrirtæki og trilljón verkefni fyrir jólin. Við fórum að tala saman og eitt varð að öðru og nú er hann í þessum töluðu orðum að klára að hanna bæklinginn svo hann verði klár í prentun. Besta við þetta er samt það að engin peningur fer í þetta. Öll vinna er gefins og við ætlum að láta allan ágóðan renna óskertur til UNICEF Pilipseyja.
Það er mikil þörf núna fyrir því að koma uppbyggingu í gang og verna börnin þar.

Bæklingurinn mun kosta 990 kr og svo mun bætast einhverjar krónur við póstsendingu.
Það verða 15 uppskriftir í bæklingnum, bæði vinsælar sem hafa komið hér fram á blogginu og nýjar sem ég hef töfrað fram :)

Hér er smá sýnishornTuesday, November 19, 2013

Pistasíu fudge


Vá hvað tíminn bara flýgur áfram. Reyndar endurtek ég þetta á þessum tíma á hverju ári. Finnst alltaf vera alveg að koma jól. Nú er smátt og smátt að gerast jólalegra hér í koti. Börnin búin að fá seríurnar sínar upp í glugga sína en það kostaði sitt. Lofaði í gærkvöldi að setja upp seríur, hoppaði niður í geymslu en.....engar seríur! Hvaða rugl er það! Leitaði og leitaði, kom upp og leitaði í öllum skápum og nei, engar seríur. Hringdi til Grænlands til að ath hvort grænlendingurinn minn vissi eitthvað af þessu.

En þessu var bara reddað með ferð í Rúmfatalagerinn og seríur komnar upp og ég neyddist til að kaupa meira jóladót í leiðinni því ég komst að því að ég á bara einn kassa af jóladóti. Það er engan vegin að virka.


Nauðsynlegt að eiga nóg af kertum og kertastjökum. Varð of skotin í hreindýra stakanum!
Pistasíu fudge


90 g smjör
5 msk sukrin gold
5 dl rjómi
6-8 dropar af vanillu eða karamellu Via-Healt stevíu
2 dl pistasíur

Allt nema hnetur sett í pott og látið malla á lægsta hita í ca 30 mín. Passa að hræra ekki of mikið. Rétt að hræra á tíu mínútna fresti. Saxa niður hnetur og setja í blönduna þegar hún er orðin þykk. Hrært saman og sett í form og í frysti í nokkra klukkutíma. Skorið í bita og geymt í ísskáp.Monday, November 18, 2013

Fljótlegar Quest kökur


Svona má veðrið vera í vetur og helst allan jóla mánuðinn! Reykjavíkin var yndisleg í dag. Það var kalt jú en á meðan það er logn og svona fallegur snjór þá er þetta yndislegt. Og börnin, þeim finnst þetta ekki leiðinlegt. En á svona busy degi eins og þessum, vinna, fara með barn til að fá gleraugu (hvernig fór framhjá mér að tvö af börnum mínum eru hálfblind??) taka til í barnaherbergi hjá einu barni (þriggja tíma vinna), klæða börnin inn og út og þessi almennu þrif á heimilinu þá er maður ekki alltaf í stuði til að hræra í smákökur þó manni langi ógurlega mikið í. Því er þetta æðislegt á svona dögum.

Ég skoða mikið sænskar síður og Svíarnir eru duglegir að útbúa smákökur úr prótein stykkjum sem heita Quest Bars og ég búin að gráta í marga mánuði að geta ekki keypt þetta hér á landi og búin að vera við það að fá sænska ættingja til að kaupa og senda mér hingað heim. En! Haldiði að ég hafi bara ekki fundið þetta svo út í búð um daginn!!! Já, það sem Dísin var glöð :)
Quest bars er sykurlaust og lágkolvetna og því í fínu lagi að fá sér inn á milli. Ég á eftir að fjárfesta í fleiri tegundum og prófa þær líka.Það aldeilis gaman í dag að komast aðeins út í snjóinn og dóttirin brosir allan hringinn eftir að hafa fengið gleraugun loksins en hún er búin að vera tuða í ár um að fá gleraugu eins og stóri bróðir. Lítið vissi ég að hún var ekkert að plata þegar hún sagðist vera "blind"


Kósýheitinn verða ekki meiri en þetta!!

Quest kökur

1 pakki af quest bar cookie dough

Skera súkkulaði stykkið í 5-6 jafna bita. Ég krem þetta aðeins niður og reyni að móta hring. Set á bökunarpappír og inn í ofn á 175 gráður í 7-10 mínútur.

Kom mér á óvart hve gott það er að búa til smákökur úr þessu :)

Friday, November 15, 2013

Súkkulaði og kókosmús


Af því það er komin helgi og margir sem vilja gæða sér á góðum eftirrétt, þá ákvað ég að henda þessari inn fyrir ykkur :)
Súkkulaðimús


25 g sukrin
3 eggja rauður
100 g 70% súkkulaði
200 ml rjómi
6-8 dropar Via-Health stevía original

Sykur og egg þeytt vel saman. Yfir heitu vatnsbaði er blandan hituð aðeins þar til hún fer að þykkjast.
Súkkulaði brætt yfir heitu vatnsbaði.
Rjómi þeyttur og eggjarauður og stevía blandað varlega við. Í lokin er brætt súkkulaði sett út í rjóman og blandað vel saman. Sett í form og inn í ísskáp eða frysti.


Kókosmús


80 ml rjómi
20 g sukrin
15 ml  rjómi(fyrir gelatín)
1/2 gelatín blað
8 dropar Via-Health stevía kókosbragð
50 g hreint jógúrt

Gelatín sett í vatnsbað og geymt í 5-10 mín.
Þeyta rjóma, stevíu og sukrin saman.
Gelatín er tekið úr vatni og kreist allan vökva úr og sett í pott ásamt 15 ml af rjóma. Hræra þar til uppleyst í rjómanum. Blanda við músina og í lokin er jógúrt bætt við.

Hægt að setja ofan á súkkulaðimúsina eða í sérskál og inn í frysti eða kæli.Monday, November 11, 2013

Karamellu fyllt súkkulaði

Ég var með smá leik á facebook síðunni fyrir Dísukökur þar sem ég dró einn sem vann vörur. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og núna í samstarfi við Via-Health Stevíu ætla ég að vera með annan leik.

Einhver sem langar að eignast kanill og karmellu stevíu? Glæný vara sem ég er búin að bíða spennt eftir og strax byrjuð að nota. Farið á facebook síðu Dísökökur og líkið við þessa mynd þar og kvittið undir hana til að eiga möguleika á að vinna þessar dúllur.Súkkulaði er alltaf gott, alltaf en karamellu fyllt súkkulaði er enn betra. Hvað þá þegar hægt er að borða það með hreina samvisku með kertaljós og kósý sokkum :-)
Karamella


50 g smjör
1 dl rjómi
4-8 dropar Via-Health karmellu dropar
Smakka til hve sæta þið viljið karamelluna :-)

Smjör, rjómi og stevía sett í pott og sett á miðlungs hita. Þegar suða kemur upp er hellan stillt á lægsta hita og karamellan látin malla í 30-40 mín. Á cirka 10 mínútna frestir er gott að hræra rétt í karamellunni. Passa þarf að hræra ekki of mikið því þá getur hún skilið sig. Þegar komið er smá þykkt í karamelluna eftir 30-40 mín er hún tekin af hellunni og látin kólna.

Með súkkulaðið getið þið keypt ykkar uppáhalds súkkulaði og brætt yfir heitu vatnsbaði eða notað uppskriftina sem ég er með á síðunni með að klikka HÉR

Brætt súkkulaði er sett í form. Smá sett í botninn á forminu og svo pensla ég hliðarnar með súkkulaðinu líka. Gott að hafa smá þykkt í þessu. Set formið inn í kæli í 5 mín. Set karamelluna ofan í formið til hálfs eða eins mikið og hugur girnist en passa samt að það sé pláss til að setja í lokin súkkulaði yfir. Formið aftur sett inn í kæli í um 10 mín. Tekið úr kæli og sett súkkulaði sem fyllir formið út og aftur inn í kæli. 

Uppskriftin af karamellunni er nokkuð drjúg og því setti ég restina af henni í lítil form og í kælinn og þar komin með dýrindis karamellu. Einnig hægt að bæta við smá af söxuðum hnetum í afganginn og búa til hnetu karamellu.


Saturday, November 9, 2013

Lax í gratín baði.


Kuldaboli bítur vel í kinnar núna og ég búin að draga fram þykka vetrasokka og eldhúsið tekur vel á móti mér fyrir baksturs dúllerí í dag. En ég ætla samt ekki að pósta núna uppskrift af sætu heldur af ótrúlega góðum fiskrétt sem ég eldað í vikunni fyrir fjölskylduna. Vildi óska að ég ætti lax svo ég gæti skellt í þennan aftur núna og borðað ein með tónlist og kertaljósi því ég myndi hreinlega ekki tíma að bjóða með mér.
Lax


1 kg af laxa flaki beinlausum
1 stór laukur
70 g majones
2 msk sítróna eða lime safi
1/2-1 msk dijon sinnep
2 hvítlauksgeirar
50 g fínt rifin parmesan ostur
1/2 bolli rifin mozzarella ostur
salt og pipar eftir smekk.

Hita ofninn í 200 gráður.
Setja lax á bökunarpappír og salta og pipra eftir smekk. Skera lauk í þunnar sneiðar og dreifa á fiskinn.


 Blanda saman í skál sítrónu safa, mæjónes, hvítlauk og sinnep. Dreifa yfir fiskinn.


Rifnum osti dreift yfir 


Inn í ofn í 15-18 mín
Borið fram með blómkálsmús

Wednesday, November 6, 2013

Cake pops


Þið eruð nú meiri krúttbomburnar :-) Takk fyrir hjálpina í dag með að koma síðunni á framfæri og eignast fleiri læk. Já ég verð alveg rosalega gráðug á like fyrir facebook síðuna mína.

En ég lofaði cake pops og ég stend við mín loforð.Cake pops


2 eggja rauður (má líka vera heil egg)
100 g smjör
80 g súkkulaði 70% eða hærra
1 dl rjómi
4 msk sukrin
6-8 dropar Via-Health stevía súkkulaði
6-8 dropar Via-Health stevía vanillu

Eggja rauður, stevía og sukrin þeytt saman.
Smjör og súkkulaði brætt í potti og blandað vel saman. Bæta rjómann út í og hræra saman við. Eggjarauður bætt varlega út í.

Sett í ofn sem er 180 g heitur í ca 15-20 mín.  Leyfa kökunni að kólna og nota svo gaffall til að rífa hana í sundur og setja í skál.


Smjörkrem


1 dl sukrin melis
2 eggjarauður
80 g mjúkt smjör
6-8 dropar Via-Healt stevía original
2-4 tsk kakóduft (eftir hversu mikið kakóbragð er óskað eftir)

Smjör, sukrin melis og rauðum þeytt vel saman og svo er stevíu dropum og kakódufti bætt við.

Blanda kreminu vel við kökuna og kæla í klt.
Búa til litlar kúlur og setja í frysti í ca 10-15 mínútur.
Bræða súkkulaði í vatnsbaði og dýfa kökukúlunum í súkkulaðið til að húða það. Hægt er að setja kúlurnar á nammi pinna sem fæst meðal annars í allt í köku eða setja þær í lítil muffinsform eins og ég gerði.

Skreyta kökurnar með salti, hnetum, smá chili, sukrin sem búið er að lita með smá matarlit, endalausir möguleikar :-)Tuesday, November 5, 2013

Marokkóskur Kjúklingur


Þegar það er svona "yndislegt" vetraveður úti og kuldin nístir inn að beinum þá er gott að fá smá hita og sól í hjartað í gegnum matreiðslu. Fyrir nokkrum árum síðan fórum við hjónin í dagsferð til Marokkó. Þar fengum við dýrindis hádegismat í fornri höll og.....já ég eiginlega get bara ekki lýst matnum og tilfinningunni sem ég upplifði þarna. Ég á því miður ekki tagine pott til að elda í en það er hefðbundinn pottur í matreiðslu í marokkó en það er hægt að redda sér :)
Marokkóskur Kjúklingur


6-8 stk af kjúklingabitum á beini
3 msk olive olía
2 rauðlaukar
3 hvítlauksgeirar
1 tsk kanill
1/2 tsk salt
3 msk lime safi
2 msk fínsöxus steinselja
 saxað kóriander
2 msk engifer
1/2 tsk saffran í smá heitu vatni
3 msk af ólifum

Hita pönnu á meðalhita og bæta við olíu. Skera laukinn í þunnar sneiðar og dreifa á á pönnuna


Mauka hvítlauk og dreifa yfir laukinn ásamt salti, engifer, saffron með vatninu, kanill og lime safanum.
Koriander og steinselja svo dreift yfir allt.


Kjúklingur sett ofan á allt og bætt er við 170 ml af vatni. (Ég var með bringubita á beinum og sneri kjötinu niður.) Ólifur settar með og lokið sett á og þetta látið malla í ca 45 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.


Í raun er þetta svo auðveldur réttur að útbúa og lyktin í eldhúsinu ohhhh já hún var heldur betur lokkandi. Bragðið var yndislegt. Sæti laukurinn kom svo vel í gegnum og kanillinn mmmm já þetta var bara æði.
Engin sósa er þörf með en ef þið viljið endilega sósu myndi ég mæla með grískri jógúrt með smá lime safa og hvítlauki. Blómkálsgrjón eru líka góð með.Friday, November 1, 2013

Spínat pestó


Er þetta nokkuð orðið vandræðalegt, hvað ég pósta mörgum uppskriftum þessa daganna? Stundum er bara svo gott að standa í eldhúsinu og prófa nýja hluti og gleyma öllu öðru :-) Ég veit að ég póstaði bara í gær uppskrift en það er beðið eftir þessari svo ég ætla að henda henni inn snöggvast.

Átti fullan poka af spínati sem var að fara renna út og ákvað að googla hvað gæti verið hægt að gera og fann fullt af spennandi uppskriftum, en ákvað að prófa að gera spínat pestó uppskrift sem ég fann.
Spínat pestó


2 bollar ferskt spínat
1/2 bolli fersk steinselja
1/2 bolli valhentur
1/4-1/2 bolli rifin parmesan (var sjálf með hálfan)
3 hvítlauksgeirar
2 msk olía
salt og pipar eftir smekk.

Þar sem spínat hefur ekki sama sætleika og basilíka þá er hægt að bæta örfáum dropum af vanillu stevía. Prófið ykkur bara áfram.
Pestóið er frábært á hrökkbrauð, rista brauð eða á pizzubotninn.


Allt sett í matvinnsluvél þar til orðið að góðu mauki. Mitt var gróft því mér finnst gott að finna fyrir hentunum og fá smá chruncy áferð.

Geymist í nokkrar vikur i ísskáp segir á síðunni sem ég fann þessa.