Thursday, May 29, 2014

Müsli

Bloggið hefur fengið að hvílast vel síðustu vikur og mánuði en nú er ég að leggja lokahönd á uppskriftir fyrir bókina mína. Ég er komin með um 100 uppskriftir. En alltaf þegar ég segi við sjálfa mig jæja nú er síðasta uppskriftin komin þá læðist að mér hugmynd og ég verð að framkvæma og hún er svo komin á lista fyrir uppskriftum í bókina. En einhvern tímann verður maður að loka á þetta og það verður gott að geta sett bókina til hliðar og bakað sér til gamans. Ekki það að þetta hafi ekki verið gaman. Aldrei bjóst ég við að fara í bókagerð en það er samt alltaf smá pressa sem fylgir þessu. Sumarið verður rólegt en svo hefst smá annarsamur tími í haust við kynningu svo ég hlakka til að koma bókinni alveg frá mér og eiga smá hvíld fyrir komandi hausti.

Í dag fékk ég hugmynd af ostatertu sem ég bara varð að prófa og botninn heppnaðist sjúklega vel en ég kom svo að því að hann væri líka fullkomin sem musli ef maður bætti bara smá í hann.Musli

100g pekanhnetur, smátt saxaðar
50g möndlumjöl
2-4msk sukrin gold (eftir hversu sætt þú vilt)
40g smjör
20-30g kókosflögur stórar
salt klípa
Trönuber (valfrjálst)


Bræðið smjör í potti og bætið svo pekanhnetum, möndlumjöli og sukrin gold við og hrærið vel saman.
Setjið á bökunarpappír og dreifið vel úr og þjappið. 
Bakið á 190 gráður í um 5 mínútur eða þar til farið að brúnast aðeins. Fylgist vel með svo það brennur ekki. Látið kólna. Takið úr ofninum og setjið kókosflögur á bökunarpappír og dreifið vel úr. Bakið í ofninum í um 5 mínútur eða þar til gullið. 
Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær muldar vel niður í skál og salt, kókosflögur og trönuber blandað vel saman við. Setjið í krukku.

Þetta er tilvalið sem botn fyrir ostaköku ef sleppt er kókosflögurnar og trönuberin. Ég er búin að vera borða þetta sem snakk í dag og get ekki beðið að setja þetta út á chiagrautinn minn :)

Tuesday, May 20, 2014

Náttúrulegir matarlitir


Vinkona mín vildi endilega að ég prófaði mig áfram með að gera náttúrulega matarliti og auðvitað prófaði ég mig áfram :) Er minna mál að gera en ég bjóst við. Kannski ekki eins auðvelt og að opna matarlitstúpuna og hella nokkrum dropum í kremið og voila en það er eitthvað við það að gera eitthvað frá grunni sjálfur :) Ég er ekki búin að prófa allt sjálf en þetta er hrikalega sniðugt fyrir þá sem vilja prófa sjálfir heima og losna við E-efni. Flestir litirnir eiga ekki að skilja eftir neitt bragð ef þeir eru soðnir í vatni en berin/maukin gefa auðvitað gómsætt bragð. Gulrótasafinn gæti gefið smá sætleika.

Rauðrófusafi sem ég blandaði út í rjómaost. Myndin sýnir ekki alveg rétta lit en hann var fallega fölbleikur.


Hér koma því nokkrar hugmyndir að litum og hvað sé hægt að nota.


Bleikur/rauður - rauðrófur, jarðarber, hindber
Skerið rauðrófur í nokkrar sneiðar og setjið í pott með hálfum bolla af vatni. Látið hitna og takið rauðrófurnar úr þegar komin er góður litur á vatnið. Látið sjóða smá niður til að fá sem sterkasta lit.
Ef nota á hindber eða jarðarber eru þau maukuð og sett í sigti og sigtað frá fræin. Berin eru ekki í eins fljótandi formi og rauðrófu liturinn og er meira eins og purre.

Fjólublár - Rauðkál, bláber
Skerið rauðkálið í bita og setjið í pott. Látið vatn ná yfir rauðkálið og látið sjóða (frábært að nota vatnið þegar búið er til heimagert rauðkál) Látið vatnið sjóða aðeins niður.
Með bláberin er gert það sama og með hindberin og jarðarberin.


Blár - Rauðkál
Þetta er svooooo sniðugt! Notið 1 bolla af rauðkálsvatninu og blandið út í 1/2 tsk af matarsóda og hrærið. Liturinn fer frá því að vera fjólublár í því að vera blár. Bætið við matarsóda ef þið viljið fá ljósari lit.

Gulur - túmerik krydd, gulrótasafi, mangó 
Mauka mangó í purre

Grænn - Spínat safi, spirulina duft
Spínat soðið með vatni og sem er svo látið sjóða niður.

Brúnn - kanill, lakkrísduft, kakóduft

Það er um að gera að prófa sig áfram og aldrei að vita hvert hugurinn fer. Þið trúið aldrei hvað mér datt í  hug að gera eftir að hafa dundað mér við þetta. Ef heppnast vel set ég inn á morgun mynd ;)

Friday, May 9, 2014

Frozen bollakökur

Það er auðvitað Pollapönk dagar núna en það er alltaf Frozen partý á mínu heimili, 24/7. 
Börnin syngja lög úr myndinni, þó aðallega dóttir mín og leikið er atriði úr myndinni einnig. Stundum koma tímabil þegar við tölum ekki saman heldur syngjum það sem við þurfum að segja við lögin. Ég sjálf er mjög skotin í snjókarlinum Olaf sem elskar hlý knús og sumar :)
Og af því það er föstudagur og ég er í stuði þá ákváðum við að föndra aðeins og baka.
Frozen bollakökur búnar til með það sem var til heima.
Pinnarnir 
Prentaði út myndir af karakterum úr myndinni og notaði svo glas til að gera hring og klippa út. 
Átti svo inni í skáp notaðan gjafapappír (já ég geymi gjafapappír) og notaði svo aðeins stærra glas til að útbúa annan hring og klippa út.


Ég átti ekki lím svo ég notaði kennaratyggjó til að festa myndina og silfurpappírinn saman og svo átti ég sleikjó pinna úr allt í köku sem ég festi með.

Ég fann þessa flottu mynd af Olaf á netinu þar sem hægt er að prenta út og klippa út. Ég er rosalega hrifin af Olaf. Ég elska að horfa á ensku útgáfuna af Frozen bara út af Olaf :)
Þið finnið úrklippu Olaf hér.Kökurnar sjálfar eru úr kökumixi frá funkjonell.
Ég notaði hálft mix og setti um 10 stevíu dropa út í mixið.
Setti deigið í um 10 muffinsform og bakaði í um 20 mínútur.

Kremið


220g mjúkt smjör
200g sukrin melis
4 msk möndlumjólk
20 dropar Via-Health vanillu stevía
1 tsk vanillu eccense
Blár matarlitur
kókos fyrir skraut.

Þeytið smjörið í um það bil 5 mínútur. Skiptir máli til að kremið verður ekki kekkjótt
Bætið sukrin melis smátt og smátt við ásamt stevíu og eccense.
Í lokin setjið þið bláan matarlit eftir hentugleika.


Thursday, May 1, 2014

Núggat ís

Það er pínu fyndið þegar ég fæ hugmyndir. Stundum koma þær í draumi um miðja nótt og þá vakna ég og þarf að skrifa hugmyndina niður svo hún gleymist ekki. Það gerist ósjaldan. Ein svona hugmynd kom einmitt í vikunni. Núggat ís, reyndar var það fyrsta sem kom var nutella ís og sú uppskrift er ég með skothelda sem býður betri tíma en beint á eftir kom núggat ís og hann var góður.
Núggat ís


100g núggat (uppskrift hér)
2 dl rjómi
1 egg
2msk sukrin melis
10 dropar súkkulaði Via-Health stevía

útbúið núggat eftir leiðbeiningum nema ekki kæla það.
Þeytið rjómann.
Egg og sukrin melis ásamt stevíu þeytt vel saman.
Öllu blandað vel saman og sett í frysti þar til frosið. Gott að hræra á 30 mín fresti.