Thursday, July 10, 2014

Heimagerðir Sykurmolar

Baksturs gleðin heldur áfram að hrjá mig núna enda ekkert veður sem ég sækist í úti. Við mæðgur ákváðum að prófa að búa til okkar eigin sykurmola í dag með að nota sukrin. Ég man þegar maður var krakki þá var alltaf skál með sykurmolum í eldhúsinu hjá ömmu og afa og það var svo gaman að næla sér í einn mola jahh eða svona meira eins og átta. Ég var búin að sjá myndir af heimagerðum sykurmolum á pinterest og fannst þetta svo hrikalega krúttað að mig langaði að athuga hvort þetta virkaði á sukrin líka. Þetta er sætt í teboðinu eða bara sem skraut í eldhúsinu sem hægt er að stelast í án þess að hafa áhyggjur af tannheilsunni.

Heimagerðir sykurmolar


100g sukrin
2tsk vatn
nokkrir dropar af bragðefni ef þess er óskað
gel matarlitur ef óskað er

Setjið sykur í skál og byrjið að blanda matarlitinn við sykurinn. Setjið tsk af vatni út í og blandið og svo seinni tsk. Setjið bragðefni ef þið óskið út í og blandið veSetjið á bökunarpappír og þrykkjið niður með sleif. Notið lítið kökumót til að skera í mola og setjið til hliðar á bökunarpappírnum. Kveikið á ofninum og setjið á 60 gráður. Setjið molana í ofninn í ca 10 mínútur og hafið hurðina hálf opna á meðan. Fylgjast þarf með að sykurinn bráðni ekki en hann á að vera harður og hægt að halda á þegar hann er tilbúin. 


Synir mínir gáfu mér svo sniðugt kökuform þegar þeir komu frá útlöndum en það 
gerir það hægt að festa kökurnar á sjálfan bollan :)
Wednesday, July 9, 2014

Súkkulaðibita kökur

Eftir að hafa verið nokkuð andlaus í eldhúsinu síðustu vikur þá kom andinn yfir mig í dag. Allt í einu hafði ég þörf að skoða uppskriftir og búa til og baka og ég get ekki beðið eftir að halda því áfram á morgun með dóttur minni en eins og er erum við bara tvær komnar í sumarfrí.  Í kvöld skelltum við í hrikalega góðar súkkulaðibita kökur sem renna ljúft niður með mjólkurglasi. Þær eru með stökkum hring utan um sig en mjúkar í miðjunni. Ég ætlaði nú að hafa Maccademíu hnetur í kökunum til að hafa þær fullkomnar en fattaði svo að hneturnar eru komnar út í fellihýsi og eftir að hafa íhugað að opna hýsið bara fyrir hneturnar ákvað ég að sleppa því. Súkkulaðið sem ég keypti var frá DeBron og var með eitt dökkt súkkulaði og svo hvítt súkkulaði með núggatfyllingu. Þið getið notað annað súkkulaði sem ykkur líkar við en ég verð að játa að ég er sucker fyrir hvítu súkkulaði og núggati og það var himneskt að bíta í kökurnar og fá bita af því með.

Súkkulaðibita kökur

65g möndlumjöl helst ljóst
20g kókoshveiti
110g smjör við stofuhita
1/2tsk lyftiduft eða vínsteinslyftiduft
100g sukrin gold
6-8 dropar bragðlaus stevía
1 egg
1/4tsk salt
2tsk kanill
1stk debron súkkulaði eða 50g af öðru sykurlausu súkkulaði
1stk debron hvítt núggatfyllt súkkulaði 
Maccademíuhnetur ef þið viljið

Smjör, stevía og sukrin gold þeytt vel saman í ca 5 mínútur þar til fluffy. Í aðra skál, setjið þurrefnin og blandið saman. Bætið þurrefnum við smjörið og blandið vel. Bætið við eggi og blandið vel. Útbúið litlar kúlur og setjið á bökunarpappír og þrýstið þær smá niður. Hafið gott bil á milli þar sem kökurnar stækka vel í ofninum. Bakið á 175 gráður í 8-10 mínútur eða þar til gullinbrúnar. Látið kólna áður en fjarlægðar af bökunarpappíri.

Tuesday, July 8, 2014

Lakkrís fudge

Ég er karamellu fíkill en kannski meiri lakkrís fíkill og er ánægð að vera ekki með of háan blóðþrýsting sem stoppar af lakkrísát. Reyndar stoppar sykurlaust fæði það af þó maður fær sér einstaka sinnum. Reyndar get ég ekki stoppað að fá mér ef í boði er lakkrís. Ég ákvað því að prófa að gera lakkrís karamellu og þær heppnuðust bara nokkuð vel þó ég segi sjálf frá. Þessi uppskrift er lítil en auðvelt er að tvöfalda hana.Lakkrís fudge


1 dl rjómi
20g sukrin gold
5g Walden farms pönnuköku sýróp
um 2g af Anís kryddi, smakkið til
2-3 dropar af Anís bragðefni, keypti mitt í allt í köku
5g smjör

Setjið allt saman í skál sem þolir örbylgju og blandið vel saman. Setjið á hæðsta í örbylgju og látið á 2 mínútur. Takið út og hrærið aðeins í. Stillið örbylgjuofninn aftur á 2 mínútur. Fylgist með. Karamellan er tilbúin þegar hún er orðin þykk. (Getur tekið mislangan tíma eftir ofnum).  Setjið í form og í kæli og leyfið að standa þar í 1-2 tíma. Skerið í bita og geymið í kæli.


Thursday, July 3, 2014

Núggatfylltir konfektmolar

Veðrið er enn yndislegt hér í höfuðborginni. Í staðin fyrir að vera fá sér sorbet eða kalda drykki þá er ég í vetrarskapi og fæ mér konfekt mola. Þessir eru einfaldir og varla þörf á uppskrift en hér eru upplýsingar hvernig ég geri þetta.Núggatfylltir konfektmolar

1 plata af sykurlausu súkkulaði
1/2 uppskrift af núggati, uppskrift hér
4-6 dropar af súkkulaði stevíu (valfrjálst)
Konfektform

Bræðið súkkulaðið yfir heitu vatnsbaði. Bætið við súkkulaði stevíu ef þið viljið. Mér finnst koma betra súkkulaði bragð af súkkulaðinu ef ég bæti stevíu út í. Setjið súkkulaði í formin. Bara smá til að pennsla botninn og hliðarnar. Setjið formið í frystinn í 5-10 mínútur. Endurtakið og setjið aftur í frystinn. Setjið litla núggat kúlur í formið og fyllið formið svo með súkkulaði. Setjið aftur í frysti í 5-10 mínútur og fjarlægið svo úr formunum. Ef þið eigið ekki form getið þið formað núggatið í kúlu eða kassa og hjúpa það með súkkulaði. Mér finnst líka gott að strá smá salti, lakkrísdufti eða hnetukurli ofan á molana mína.

Tuesday, July 1, 2014

Súkkulaði rjóma búðingur

Ég hef lítið verið í eldhúsinu síðustu vikur. Veikindi og þreyta hafa yfirtekið mig og ég ekki haft nennu né orku að baka. En stundum þegar maður er heima í veikindaleyfi og það rignir og óþarfa hvasst í byrjun júlí langar manni í eitthvað gott sem tekur tvær mínútur að gera. Þetta er bara rjómi í öllu sínu veldi með smá breytingum en ég elska rjóma. Þessi uppskrift er líka góð á kökur í staðin fyrir þennan venjulega hreina rjóma sem maður fær stundum leið á ;)

Súkkulaði rjóma búðingur fyrir tvo

125ml rjómi
4tsk sukrin melis
4 dropar súkkulaði stevía
1msk ósykrað kakó

Þeytið rjóman hálfa leið. Bætið við restinni af hráefnunum og stífþeytið búðinginn. Voila tilbúið. Ef þið eruð að halda ykkur frá mjólkurvörum er hægt að gera þennan búðing með kókosmjólk og nota þykka hlutann af mjólkinni. Einnig fannst mér mjög gott að setja heslihnetukurl með og hreinan rjóma :)