Tuesday, September 30, 2014

Kjúklinganaggar


Þessi uppskrift er mjög vinsæl hjá púkunum mínum.
Sá þessa hugmynd á pinterest og svo hefur maður breytt og prófað eftir smekk þegar kemur að kryddum. Þessi útgáfa hér er sú sem við notum mest. Kjúklinganaggar sem eru í raun búnir til úr kjúklingakjöti ;)
Kjúklinganaggar


4 bringur
150g möndlumjöl
50g parmesan ostur, rifin
3msk steinselja, fersk eða þurrkuð
1tsk hvítlaukssalt
1tsk sítrónupipar
1/2tsk papriku krydd
rifin ostur
smjör klípur

Skerið bringurnar í litla munnbita. Reynið að hafa þá í svipaðri stærð. Setjið í skál möndlumjöl, parmesanost og krydd og blandið vel saman.
Takið kjúklingabitana og setjið í skálina og húðið vel. 
Setjið í eldfastmót eða beint á bökunarpappír og dreifið smjörklípur yfir kjúklinginn.
Bakið í 10 mínútur á 180 gráður.
Takið kjúklinginn út og dreifið rifnum osti yfir. 
Setjið aftur í ofninn í ca 10 mínútur eða þar til eldaður í gegn.

Góðar með avocado frönskum, sæt kartöflu frönskum, heimagerði kokteilsósu og eða sykurlausri tómatsósu :)

Sunday, September 28, 2014

Pönnupizza Kristu


Prófaði þessa uppskrift af pizzubotni frá henni Maríu Kristu sem ég sá á LKL spjalli á FB og namm!
Fannst ég þurfa að pósta henni hér líka, breytti henni bara ogguponsu því ég átti ekki kotasælu.
Pönnupizza

2 egg
1 góð msk Bacon smurostur
1 góð msk rjómaostur
1msk Husk
2tsk pizzukrydd

Setjið allt í hátt glas eða box og blandið vel saman með töfrasprota.
Setjið í silikonform sem er 9 tommur að stærð. Ég var sjálf með 8 tommu form og fékk aðeins þykkari botn. 
Bakið á 200 gráðum í 10-15 mínútur eða þar til pizzubotninn fer aðeins að lyfta sér.
Takið botninn úr ofni og smyrjið sykurlausri pizzusósu yfir og það álegg sem þið viljið ásamt rifnum osti og bakið áfram í 5-10 mínútur eða þar til osturinn er gylltur.


Fljótlegt og mjög gott hjá henni Kristu :)


Friday, September 26, 2014

"Ferrero Rocher" konfekt

Hæ, nammifíkillinn hér aftur. Eina ferðina enn.
September er sykurlaus hjá ansi mörgum og það þýðir fyrir mig að þá verð ég að búa til eitthvað gott fyrir mig sem er sykrlaust og hef sjaldan staðið eins mikið í eldhúsinu að búa til gotterí.

Þetta, já þetta er svo gott að ég tárast við það að horfa á konfektið. Ég asnaðist til að hafa þetta mæðgna stund og dúllast með að gera þetta með frumburðinum. Hann táraðist líka þegar hann fékk fyrsta molann. Hann er búin að spyrja mig svona 105 sinnum í dag hvenær ég geri svona aftur. Ég humma bara og segi fljótlega, fljótlega og læt hann ekki vita að enn eru nokkrir molar inn í kæli sem bíða eftir að ró og næði verður komið í kotið svo ég get borðað þetta ein í kvöld. Ég get ekki beðið.

Ef þið notið Balance súkkulaði getiði notað gyllta pappírinn utan um súkkulaðið utan um kúlurnar og setja þær svo í lítið konfekt form til að gera svipað útlit og fyrirmyndin ;)


Ferrero Rocher konfekt

Núggat

200g heslihnetusmjör
150g sykurlaust súkkulaði
5 dropar via-health súkkulaði stevía (má sleppa)

Bræðið súkkulaðið yfir heitu vatnsbaði ásamt stevíu (má sleppa). Bætið við heslihnetusmjörinu og blandið vel saman. 
Setjið í skál eða form með bökunarpappír í botninum og inn í kæli í minnsta kosti klukkutíma.

Konfekt

50g heslihnetur
1 skammtur núggat
Nokkrar heilar heslihnetur
150-200g sykurlaust súkkulaði

Takið núggat og skafið eina væna tsk og setjið á bökunarpappír. Best er að vinna með það kalt.
Þrýstið því aðeins niður og setjið eina heila heslihnetu í og myndið svo kúlu utan um hnetuna.
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði.  Saxið heslihnetur smátt og blandið við súkkulaðið .
Hjúpið kúlurnar í súkkulaðinu og látið í lítil konfekt form og inn í kæli.Monday, September 22, 2014

Bláberja nammi


Ég á pínu skrítin börn. Þau til dæmis vilja ekki borða grænmeti sem meðlæti með mat heldur borða það alla aðra stundir dagsins. Það má heldur ekki elda grænmeti heldur vera ferskt. Það er ekkert að þessu svo lengi sem þau borða sinn skammt af grænmeti.

Þau eru líka skrítin þegar kemur að t.d bláberjum. Þau (tvö yngri) vilja ekki borða bláberin eins og þau eru frá náttúrunnar hendi en bláberjasultur elska þau.

Við vorum með afmæli um helgina þar sem keypt var hellingur af melónu, vínber, bláber og öðru góðu nammi fyrir krakkana og við vorum með afgangs bláber.
Ekki þýðir að bjóða börnunum að borða þau svo ég ákvað að búa til sultu. Svo ákvað ég að prófa að búa til bláberjahlaup handa þeim.

Úrkoman var góð og er horfin ofan í litla maga og þau spyrja mig hvenær ég útbúi svona aftur næst.Bláberjahlaup

2 bollar bláber
5 matarlímsblöð
safi úr einni sítrónu
2-4 msk Sukrin melis ef þið viljið sæta


Matarlímsblöð sett í skál með vatni og látin liggja í 5-10 mínútur.
Setjið bláberin ásamt sítrónusafa í pott og látið malla í ca 10 mínútur. 
Setjið í blandara eða notið töfrasprota til að mauka bláberin vel.
Setjið aftur í pottinn og bætið við sætu og svo matarlímsblöðin þegar sukrin melis er alveg blandað við. Setjið á silikon mottu og dreifið úr. Setjið í kæli í klukkutíma.
Skerið í litla bita eða notið lítil kökuform til að skera út.
Setjið í skál og geymið í kæli.

Þetta er frábært sem hollt nammi eða í nestisboxin.

Sunday, September 21, 2014

Súkkulaði með heslihnetum

Oj. Eina sem ég get sagt um þetta veður er oj.
Nálgast hádegi og ég er enn í náttkjólnum og sloppnum og held bara að ég ætla ekki að fara úr því í dag. Dóttirin er líka í sínum náttkjól, en það er kannski því þetta er Frozen náttkjóll og er notaður 24/7. Ég ætla ekki að ljúga, ég vildi óska að jólatréð væri hér inni stofu með fallegu jólaljósunum sínum og ég að hlusta á Michael Buble.
En ég læt jólaljósin í glugganum nægja. Já ég er búin að kveikja á jólaseríu í stofuglugganum. Ég tek þau aldrei niður, er of löt til þess og leið og fer að dimma er kveikt á þeim til að fá fallega birtu á kvöldin.

En þar sem ég er ekki með jólatré og ætla ekki alveg að fara hlusta á jólalög ætla ég að kveikja á kertum, hlusta á góða tóna, lesa bók og narta í smá konfekt.

Þetta er yndislegt konfekt. Eins og vinkona mín sagði í gær, þetta smakkast eins og jól.
Það er mjög gott að eiga þessa í kælinum. Það þarf ekkert samviskubit þegar maður fær sér svona mola. Ekkert nema holl fita sem við þurfum öll á að halda.

Þetta er líka fljótlega útbúið. Ég útbjó þetta með syni mínum, hann hjálpaði mér að búa til uppskriftina og sá svo um að sulla þessu öllu saman :)
Eigum við eitthvað að ræða þetta fallega krullaða rauða hár!!??


Súkkulaði með heslihnetum

100ml kókosolía brædd 
40g sukrin melis 
30g ósykrað kakó
6 dropar via-health súkkulaði stevía
50g heslihnetur

Heslihnetur settar á bökunarpappír og inn í 175 gráða heitan ofn í 5-7 mínútur. Passa að þær brenni ekki. Látið kólna og setjið í viskustykki og nuddið þær á milli viskustykkisins svo hýðið detti af. Saxið hneturnar.

Setjið kókosolíu í pott (getið verið með bragðlausa kókosolíu eða venjulega) og hitið varlega.
Sigtið sukrin melis og kakó út í kókosolíuna og blandið vel saman. Bætið við stevíu og heslihnetum.
Setjið í konfektform eða lítil muffinsform og inn í kæli. Geymið í kæli þar sem kókosolían bráðnar við stofuhita.Friday, September 19, 2014

Vanillu ostakaka


Helgi enn og aftur. Tíminn þeytist áfram. Þá á maður að tríta sig vel.
Hér er uppskrift af fljótlegum eftirrétti fyrir tvo.
Vanillu ostakaka

Botn:

50g ljóst kökumix frá Funksjonell
1tsk sukrin gold
5g sykurlaust síróp eða brætt smjör
2msk vatn

Setjið allt í skál og blandið vel saman. Setjið í tvö lítil form eða glös og geymið í kæli.

Fylling:

2 matarlímsblöð
100g jógúrt
50g rjómaostur
1msk sukrin melis
1/2 vanillustöng
2msk vatn

Setjið matarlímsblöð í skál með vatni og látið liggja í 5 mínútur.
Jógúrt, rjómaostur og sukrin melis þeytt vel saman í skál. Skafið vanillufræ úr stönginni og bætið ofan í skálina og þeytið vel.
Setjið matarlímsblöð í pott ásamt 2msk af vatni og hitið á miðlungshita þar til uppleyst.
Bætið varlega við fyllinguna  á meðan þeytt er.
Skiptið á milli í formin eða glösin og látið kólna í klukkutíma í kæli.
Skreytið með berjum eða sykurlausri sultu.
Wednesday, September 17, 2014

Kókosflögu snakk


Þegar maður vill fá eitthvað gott til að narta í sem er fljótlegt að útbúa?
Þá mæli ég með þessuKókos snakk


1 bolli kókosflögur
2msk fljótandi kókosolía
1/2tsk chili krydd
1/2-1tsk hvítlauksalt

Setjið krydd ásamt fljótandi kókosolíu í lítið glas eða skál og blandið vel saman. Setjið kókosflögur í skál og bætið við kókosolíu blöndu. Hrærið vel saman. Dreifið vel á bökunarpappír og setjið í 175 gráður heitan ofn í 3-5 mínútur eða þar til gyllt. Fylgist vel.

Hugmyndir af öðrum útgáfum:

Brúnkökukrydd og sukrin
Sítrónusafi go sukrin
Vanilla og kanil
Ósykrað kakó og sukrin
paprikukrydd og salt
Instand kaffi duft og lakkrísduft
Tuesday, September 16, 2014

Lakkrís frappuccino


Ég þarf stundum að leggja mig á daginn þegar ég fæ slæmt gigtarkast. Leggst undir sæng og reyni að slaka á líkamanum eins og ég get og finna verkina fjara út. Þegar ég vakna fæ ég yfirleitt svakalega þörf fyrir sykur, helst súkkulaði. Líkaminn kallar á súkkulaði eftir kastið og ég oft hleyp um eins og bjrálæðingur að róta í öllum eldhússkápum í von um að finna sykur þó svo að ég viti vel að hann er ekki að finna hér. Ég læt mig þá bara vona að ég eigi eitthvað sem ég hef gleymt að henda út.

En, ég er búin að finna eitt sem hjálpar til að slökkva þessa tilfinningu.
Ískaldur Lakkrís Frappuccino. Ó hve ljúft er að fá svona svalandi drykk sem mettar mig, er sykurlaus og kæfir sykur þörfina. Stundum á ég samt sykurlaust súkkulaði í ísskápnum sem ég þá fæ mér en það er gott að eiga eitthvað fleira sem hjálpar til.

Ég prófaði að kaupa Raw lakkrísrótarduft í staðin fyrir þetta fína sem ég hef verið að nota og það er ekkert síðra. Ég get borðað það beint upp úr dollunni ef þannig liggur á mér. Hægt að sjá hvernig það lítur út HÉRLakkrís frappuccino


1dl vatn
1 bolli klakar
3msk rjómi
1/4tsk vanillu extract eða dropar
2-3tsk sukrin
1/2-1tsk Lakkrísrótarduft (Raw frá Johan Bulow)
1-2tsk Instant kaffiduft (má sleppa)

Setjið klaka í blandara og malið þá.
Bætið við vatni, rjóma og vanillu.
Bætið við þurrefnunum og blandið við.

Ef þið viljið mjólkurlausa útgáfu er hægt að nota möndlumjólk í stað rjóma.
Ef þið eruð ekki mikið fyrir kaffi er hægt að sleppa kaffinu. Hef gert bæði og jafn gott.


Sunday, September 14, 2014

Sykur og mjólkurlaust súkkulaði


Það er mikið haust í mér núna. Á fimmtudaginn helltist yfir mig kvef og beinverkir og það hefur tekið alla orku frá mér. Þegar maður er hálf slappur þá vill maður gera vel við sig og þá er gott að eiga súkkulaði í kælinum. Ég henti í þetta áðan og því búin að byrgja mig upp af snarli þegar nammi þörfin kallar. Dóttir mín, 5 ára segist hata hnetur. Henni finnst í alvöru hnetur vondar. Þegar ég heyrði hana segja þetta í fyrsta sinn var ég viss um að þetta væri ekki mitt barn, að það hefði svissast á börnum á spítalanum en svo hugsaði ég nei það getur ekki verið. Hún er svo ótrúlega lík okkur hjónum. Ég varð bara að sætta mig við það að hún ber ekki sömu ást á hnetur og ég. 

Hún hins vegar smakkaði á þessu súkkulaði áðan án þess að mamman sagði henni frá því að það væri hnetur í því. Yfirleitt finnur hún strax keiminn og spýtir út úr sér en núna heyrði ég bara namm! Henni fannst það hvíta betri og japlaði vel á því. Hún varð hissa þegar ég tjáði henni að það væri hnetur í þessu og hló og fékk sér svo meira :)
Hvítt súkkulaði


60g kakósmjör
20g bragðlaus kókosolía (má sleppa)
1dl cashew hnetur
1msk sukrin melis
1tsk vanilla extract
10 dropar via-health karamellu stevía

Ef þið viljið gera dökkt súkkulaði bætið þá við 1-2 msk af ósykruðu kakói og setjið súkkulaði stevíu í stað karamellu.

Bræðið kakósmjör og kókosolíu á lágum hita í potti. Bætið við sukrin melis, stevíu og sukrin melis. Setjið hnetur í blandara og blandið þar til verða að fíngerðu mjöli. Má líka hafa þær stærri ef þið eruð ekki með blandara eða töfrasprota. Bætið hnetunum vil og blandið vel. Setjið í form og inn í ísskáp í ca klt. Takið úr formunum og setjið í lokað ílát og geymið í kæli.

Friday, September 12, 2014

Sítrónu og bláberjakaka

Þessi uppskrift birtist í Fréttatímanum í dag en hún verður að sjálfsögðu að koma á bloggið líka, fyrir ykkur sem ekki fáið blaðið inn um lúguna :)

Auðveld og fljótlega að útbúa og gefur keim af góðum sumar minningum þegar haustið er að skella á.
Sítrónu og bláberjakaka


1 pakki kökumix frá Funksjonell
1dl brætt smjör 
4 egg
2dl jógúrt 
1 msk vanillu extract
Safi og börkur úr einni sítrónu
200g bláber

Setjið kökumix, egg, smjör, vanillu extract og jógúrt í skál og hrærið vel saman. 
Notið rifjárn til að rífa börkin af sítrónunni og passið að fara ekki í hvíta hlutann því hann er rammur. Skerið sítrónuna í tvennt og kreistið safanum í deigið. Bætið við bláberjum og hrærið vel í. Smyrjið springform með bræddu smjöri eða olíu og setjið deigið í. Bakið á 175 gráðum í 30 mínútum.

Ef þið viljið mjólkurlausa útgáfu, skiptið út smjöri fyrir olíu og jógúrti fyrir vatn.


Tuesday, September 9, 2014

Sykurlausir marengs kossar


Fallegir, góðir og krúttaðir marengskossar. Fullkomnir fyrir sykuralausan september og alla hina mánuði ársins. Marengskossar

4 eggjahvítur (stofuhita)
50sukrin (eða 25g sukrin og 25g sukrin plús)
1/4tsk salt
2tsk vanillu extract
1tsk sítrónusafi
matarlitur ef þess er óskað

Þeytið hvítur ásamt extract, salti og sítrónusafa. Bætið varlega við sukrin, 1 tsk í einu. Stífþeytið vel.
Setjið marengsinn í sprautupokka og sprautið á bökunarpappír kossana.
Setjið neðarlega inni í ofn sem er 150 gráður án blásturs og bakið í 50 mínútur. Slökkvið svo á ofninum og notið sleif til að halda rifu opinni á ofninum og látið kökurnar kólna í nokkra klukkustundir eða yfir nótt.


Sunday, September 7, 2014

Pizzusnúðar

Maður er stundum svo hrikalega heftur þegar kemur að því að nota tilbúnar vörur öðruvísi en stendur á pakkanum. Brauðmix eru bara brauðmix og kökumix, kökumix. En ég fór að hugsa um helgina hvað ég gæti gert öðruvísi. Hlýtur að vera hægt að bæta einhverju við eða gera annað en brauð eða köku. Og hugmyndirnar létu ekki á sér standa. Yfir 20 nýjar hugmyndir komu niður á blað og bíða eftir að vera prófaðar. Það fyrsta sem ég prófaði var að gera pizzusnúða og skinkuhorn úr brauðmixinu og heppnaðist það vel að börnin laumuðust í þetta þar til ekkert var eftir nema mylsnur.

Brauðmixið sem ég notaði er frá Funkjonellmat, sama fyrirtæki og býr til sukrin vörurnar.
Brauðmixið er sykur, hveitis og glútenlaust. Ef þið eruð að fylgja LKL þá er eitthvað af höfrum í mixinu en ekki mikið. Hafrar eru í raun há í kolvetnum en í 100g af þessu brauðmixi eru 3.9g af virkum kolvetnum. Ég læt þetta alveg eftir mér en aðallega er þetta búið til fyrir börnin.
Ég notaði ekki leiðbeiningarnar utan á pakkanum til að búa til pizzasnúðana.
Pizzusnúðar

18-20 stk.

1 pakki fínt brauðmix frá Funksjonell Mat
2dl hreint jógúrt
1msk hvítlaukssalt
sykurlaus pizzasósa (ég nota frá Hunt's)
pepperoni
skinka
rifin ostur

Setjið brauðmixið ásamt hreinu jógúrti og hvítlaukssalti í skál og blandið vel saman.
 Látið standa í 5 mínútur. 
Setjið deigið á smjörpappír og svo annan smjörpappír yfir og rúllið út í ferhyrning. (ef deigið er of blautt er gott að strá smá kókoshveiti eða sesammjöl á smjörpappírinn fyrst). Takið efri pappírinn af.
Setjið pizzasósu, skinkubita og rifin ost á deigið og dreifið vel út. 
Rúllið deiginu upp og notið pappírinn til að hjálpa ykkur. Skerið lengjuna í ca 1 cm rúllu og setjið í muffinsform eða beint á bökunarpappír.
Bakið á 175 gráður í ca 12-15 mínútur.

Prófið ykkur áfram með innihaldi. Smurostar, piparostur, sveppir eða eitthvað annað :)Saturday, September 6, 2014

Spínat snakk


Á miðvikudaginn var loksins myndataka fyrir bókina. Ég játa það alveg hér og nú að ég vildi alls ekki hafa mynd af mér á forsíðunni, gat sætt mig við eina litla mynd af mér á bakhliðinni. En útgefandi vildi endilega hafa þetta svona svo ég sló loksins til. En þar sem bloggið er í raun hálfgert alter ego. Hér get ég skrifað það sem ég vil og áhyggjur og hlutir sem eru erfiðir í lífinu þurfa ekki að koma hér, hér get ég því aðeins komið mér í burtu frá því. Hljómar þetta skringilega? Æj getur verið erfitt að útskýra en ef maður á erfiðan dag eða gigtin alveg að gera út af við mig þá get ég sett uppskrift inn á bloggið og skrifað um allt annað en það og það hjálpar.

En aftur að myndatökunni. Þar sem bloggið er svona, þá ákvað ég að fara alla leið í myndatöku. Fór því í Kjólar og Konfekt og mátaði svona 45 kjóla án gríns og þetta eru þykkir og miklir kjólar og án djóks, svitinn rann af mér þarna inni við að máta. Ég fann rétta kjólinn og pantaði tíma í greiðslu og förðun. Ég meina eins gott að hafa þetta flott því ég mun þurfa að lifa með þessar myndir það sem eftir er. Útkoman varð því svona
Sonur minn tók þessar myndir þegar ég kom heim og ég lék mér við að gera þær svona vintage.
Ég á mjög erfitt að standa fyrir framan myndavélina og brosa en þegar maður er komin í hálfgerðan búning þá er þetta ekki lengur maður sjálfur heldur karakter sem maður býr til og hrikalega var þetta gaman og hlakka ég til að sjá útkomuna :) Helst myndi ég vilja klæða mig og greiða alla daga þetta var svo gaman :)

En ok að snakkinu.
Ég er búin að vera með þessa uppskrift í heilt ár og geri reglulega. Í raun er þetta ávanabindandi. Þegar þú tekur fyrsta bitann þá er ekki aftur snúið og snakkið klárast á nokkrum sek.


Spínat snakk fyrir einn

Handfylli af spínati
Olía
Salt
Chili, hvítlaukskrydd eða annað krydd eftir óskum

Handfylli af spínati sett í stóra skál.
 Hafið helst öll blöðin af svipaðri stærð. 
Setjið smávegis af olíu út í og hrærið rólega í skálinni með skeið. 
Dreifið spínatblöðum á bökunarpappír og stráið salti og smá chili yfir. 
Bakað við 180 gráður í 8-10 mínútur eða þar til það verður stökkt.