Friday, October 24, 2014

Sítrónu toppar


Fyrir nokkrum dögum fékk ég þá hugdettu að setja jólauppskriftir sem ég hef búið til og sankað að mér síðasta árið í rafræna jólabók. Það er einhvern vegin miklu þægilegra að mér finnst að hafa allar jólauppskriftirnar á einum stað. Með því að hafa eina rafræna bók er hægt að flétta þessu upp í tölvunni, ipadinum, símanum eða prenta hana út.

Ég verð að játa að ég bjóst ekki við miklum áhuga og var búin að slaufa þessari hugmynd en ákvað að athuga áhugann. Vá! Ég er búin að vera orðlaus yfir áhuganum og skilaboðunum sem ég hef fengið. Þið hafið gefið mér ástæðu til að gefa þetta út :)

Hér er ein uppskrift sem verður í bókinni, auk þess að hún mun birtast í Vikunni í næstu viku.Sítrónu toppar


120g kókosmjöl
2 egg
60g sukrin melis
1tsk vanilludropar eða vanillu extract
rifin börkur utan af 1 sítrónu
25g brætt smjör eða brædd kókosolía

25g sykurlaust Valor súkkulaði
1msk pistasíur, smátt saxaðar

Þeytið vel saman egg, sukrin melis, vanilludropa og sítrónubörk.

 Bætið við bræddu smjöri og kókosmjöl og blandið vel saman og látið standa í 10-15 mínútur.

 Formið 20 litlar keilur og setjið á bökunarpappír. Bakið á 175 gráður í 8-10 mínútur eða þar til gyllt. Látir kökurnar kólna


Bræðið súkkulaðið og dýfið botninum á kökunum í súkkulaðið og stráið pistasíum yfir.Wednesday, October 15, 2014

Morgunkorn


Ég er morgunkorna einstaklingur en svo virðist sem flest morgunkorn eru stútfull af sykri.
Börnin mín eru líka morgunkorna einstaklingar. Ég reyni að kaupa það hollasta fyrir þau og er að reyna koma hafragrautnum inn hjá þeim oftar. (lesist, nenna að vakna fyrr og elda ofan í þau)
Kókopuffs er bara keypt á jólum og páskum og ég elska það að eins og síðustu páska var pakkinn til heillengi upp í skáp því þau voru bara ekkert að sækjast í hann. Verst var þó að ég kláraði hann þá bara. En ég elska gott morgunkorn með ískaldri mjólk, svo ég fór bara að sulla þessu saman og ómæ, jáhh þetta er gott! 

Ég var efins að leyfa börnunum að smakka, minna fyrir mig þið skiljið. Stelpunni fannst það vont, enda hnetur í því en miðjubarninu æj hann er alltaf að spyrja hvort hann megi ekki fá svona. Auðvitað er ég hrikalega glöð að honum finnist þetta gott en lítill hlutur af mér vill bara eiga þetta alein.Morgunkorn


50g sukrin
20g heslihnetumjöl (muldi sjálf)
50g heslihnetur, gróf saxaðar
15g af Cookie and cream Nectar prótein
30g sykurlaust heslihnetu síróp eða smjör
2msk smjör
1msk ósykrað kakó

Setjið allt í skál og blandið vel saman. Getið notað annað bragð af próteini ef þið viljið. 
Ef þið eigið ekki heslihnetu síróp er hægt að skipta því út fyrir smjöri.
Setjið allt á bökunarpappír og dreifið úr. Bakið á 170 gráðum í ca 10 mínútur. Fylgist með svo ekki brenni. Takið plötuna út og hrærið í. Þegar kólnar harðnar morgunkornin og hægt að brjóta í þá stærð sem óskað er eftir. 

Frábært með skyri, ab mjólk, mjólk, möndlumjólk eða jógúrti.
Tuesday, October 14, 2014

Spínat pizza


Ég elska pizzu og finnst gaman að prófa mig áfram með nýja pizzubotna.
Þessi botn gæti nú ekki verið hollari.
Spínat, ostur og egg. Getur ekki klikkað.

Ég er hrifin af blómkálsbotninum en er ekki frá því að þessi er betri. Blómkálið á það til að draga í sig vökva og því verður afgangs pizza ekki góð. Ég borðaði afganginn af þessari þegar hún var orðin köld og hún var ekkert síðri og varð ekki mjúk eða slepjuleg.
Spínat pizza

2 góðar lúkur af fersku spínati-rífið stilka frá
1 egg
100g rifin ostur
pizzukrydd og hvítlaukskrydd eftir smekk

Skolið spínat undir köldu vatni. Setjið það síðan í blandara eða matvinnsluvél ásamt eggi og maukið. 
Spínatið á að verða að vökva. Bætið við ostinum og blandið smá í viðbót ásamt kryddum.

Penslið bökunarpappír með olíu eða notið pam sprey.
Dreifið úr botninum á bökunarpappírinn svo úr verði ca 12" botn. 
Best er að nota hendurnar og gera þetta varlega.


Setjið botninn inn í ofn á 200 gráður og bakið í 12-15 mínútur eða þar til aðeins gylltur.


Setjið á pizzuna sykrlausa pizzusósu (ég nota hunt's eða geri sjálf) og það álegg sem þið viljið.
Bakið aftur þar til osturinn er gylltur.

Sunday, October 12, 2014

Sörur hinna lötu


Sá svo sniðugt um daginn á netinu. 
Sörur hinna uppteknu húsmóður. Ákvað að setja mínar í þennan búning en fannst orðið uppteknu ekki endilega eiga við mig. Frekar orðið löt. Ég hef alveg tíma til að gera venjulegar sörur ef ég vil, ég bara nenni því mjög sjaldan. Svo þetta var alveg frábær hugmynd hjá þeirri sem fattaði þetta og ég bara varð að prófa. Þær eru kannski ekki eins fallegar og hinar gömlu góðu sörur en það er eitthvað við ófullkomleikan í þessum. Brotið súkkulaði, óreglulegir endar. 
Já þær eru bara fullkomnar svona ófullkomnar. 

Það er yndi að eiga þessar í frysti þegar ég fæ verkjakast, eins og í dag. Stundum gleymi ég því að ég er með gigt og get ekki bakað í eldhúsinu marga klt án þess að fá að finna fyrir því.
Og þegar ég er verkjuð þá hjálpar svona góðgæti, því ekki gerir sykurinn það.
 Ónei hann bara bætir í verkina.Sörur hinna lötu


Botn

3 eggjahvítur (stofuhita)
50g sukrin melis 
70 g möndlumjöl

Eggjahvítur, sukrin melis/via-helath sæta og stevia þeytt saman þar til orðið stíft. Möndlumjölið er varlega bætt við og blandað með sleif. Sett í eldfastmót með bökunarpappír. Ég var með svona mót frá Cup Company (stærri gerðin) og stærðin á því er 31.5cm x 24,5 cm. Bakaði botninn á 150 gráður án blásturs í ca 40 mínútur. 


Krem
50g sukrin melis
100g mjúkt smjör
3 eggjarauður
2 tsk kakó
2 tsk insta kaffi

Öllu blandað vel saman.

Krem er sett á botninn þegar hún er orðin köld. Dreift jafnt yfir botninn. Frystið á meðan sykurlaust súkkulaði er brætt. Ég notaði um 150g af bræddu súkkulaði. Setjið súkkulaðið yfir söruna en leyfið fyrst súkkulaðinu að kólna örlítið fyrst. Dreifið vel úr.
Þegar súkkulaðið er búið að harðna er skorið í söruna og litlir bitar búnir til. Setjið í box og geymið í frystinum.


Friday, October 10, 2014

Bláberja chia búðingur


Einfalt, hollt, fljótlegt og ljúffengt.
Þarf ég eitthvað að segja meir um þetta?
Bláberja Chia búðingur


1 dós kókosmjólk (ég nota frá Santa María)
40g chia fræ
100g bláber söxuð
nokkur heil bláber til viðbótar


Setjið chiafræ og kókosmjólk í skál og hrærið. Saxið niður bláberin (Ég á snilldar græju frá Tuppeware þar sem ég get saxað niður allt, lauk, ferskar kryddjurtir, ber, whatever ég vil.) og bætið þeim út í skálina. Látið smá af heilum berjum í búðinginn og geymið inn í ísskáp.

Ef þið viljið sætu þá er hægt að setja ca 5 dropa af stevíu eða 4 msk sukrin.

Þessi er tilvalin sem morgunmatur, í nestið eða sem eftirréttur.Wednesday, October 8, 2014

Heslihnetu mousse


Í dag ætlaði ég að gera skotheldar heslihnetukökur. Þegar ég svo opnaði ofninn eftir nokkrar mínútur varð allt í reik, kökunar að mestu brunnar og orðin ein flöt klessa. Eins og það væri ekki nóg, þá fór Securitas reykskynjarinn í gang og jáhh bæði þjófavarnakerfið og extra háværi reykskynjarinn vældu. Ég var nálægt því að verða heyrnalaus. Ég byrjaði að skafa kökumylsnunar upp og troða upp í mig og bragðið var bara ekki sem verst, semsagt það sem var ekki brunarústir. Kona deyr ekki ráðalaus og ákvað því bara að útbúa heslihnetu mousse og jáhh, það heppnaðist ótrúlega vel :)

Nýjar fréttir eru annars þær að ég er nýjasti bloggari hjá MS-Gott í matinn og munu birtast LKL vænar uppskriftir mánaðarlega.
Einnig verður viðtal við mig í Fréttablaðinu á föstudaginn. 
Dóttir mín var svo ánægð þegar hún sá að ljósmyndarinn væri komin og hún heima. Var ekki lengi að henda á sig skykkju og kórónu og taka sér sæti við hlið mömmu sinnar.

Heslihnetu mousse fyrir 4Heslihnetukurl

30g smjör, við stofuhita
100g heslihnetumjöl
3msk sukrin gold

Setjið heslihnetur í matvinnsluvél eða blandara og myljið niður í mjöl.
Setjið allt hráefnið í skál og blandið vel saman. 
Dreifið á bökunarpappír og setjið í ofn sem er 180 gráðu heitur og bakið í 5-7 mínútur eða þar til gyllt. Fylgist vel með svo ekki brenni.
Látið kólna og myljið niður og geymið í skál.

Mousse

50g sykurlaust súkkulaði hreint
50g sykurlaust súkkulaði með heslihnetum
(má líka vera 100g hreint súkkulaði)
1 eggjarauða
2msk sukrin plús
4 dropar Via-Health súkkulaði stevía (má sleppa)
200ml rjómi
2 matarlímsblöð

Setjið matarlímsblöðin í skál með vatni og látið liggja þar til orðið lint.
Setjið súkkulaðið og rjóma í pott og bræðið við vægan hita.
Bætið við stevíu, sukrin plús og eggjarauðu í pottinn og hrærið vel.
Takið matarlímin og kreystið afgangsvökva úr og setjið í pottinn. Hrærið þar alveg uppleyst.

Setjið heslihnetukurl í 4 desert skálar. Skiljið smá eftir fyrir skraut. Skiptið svo súkkulaði blöndunni á milli skálana og setjið í kæli ca klukkutíma. Þeytið rjóma og setjið smá rjóma yfir hvert glas ásamt hnetukurli.
Geymið í kæli.
Sunday, October 5, 2014

Appelsínukaka


Meistaramánuður hafin. Þetta árið ákvað ég að taka þátt. En ég nenni ekki að setja mér markmið sem ég veit að ég mun aldrei ná að framkvæma. Markmið mitt á þessu ári er því að drekka 2 lítra af vatni dag hvern. Hingað til hefur það gengið mjög vel. Er með app í símanum sem minnir mig á að fá mér vatnssopa. Það hjálpar að fá sér Slender Sticks í vatnið. Gefur sætt og gott bragð og ég fæ bara ekki nóg af því. Hef bara prófað tvær tengundir en held að þær séu fleiri og þarf að gera mér ferð í búð og kaupa meir.Appelsínukaka


1 appelsína
rifin börkur
6 egg
100g sukrin
3msk sjóðandi vatn
1tsk vanillu extract eða dropar
180g fínmalað möndlumjöl
1tsk vínsteinslyftiduft eða venjulegt 
1tsk husk
2msk sítrónusafi


Þvoið appelsínuna og rífið börkin utan af með fínu rifjárni. Geymið í skál.
Afhýðið appelsínuna og setjið appelsínuna í blandara og maukið í fínt mauk.
Þeytið egg, sukrin og vanillu extract vel í skál.
Bætið við soðnu vatni, 1msk í einu í skálina.
Blandið þurrefnunum við.
Í lokin er appelsínumauk og börkur bætt út í.

Setjið í springform eða silikonform sem er 22-24 cm á stærð.
Ef þið notið springform er gott að setja bökunarpappír í botninn.
Bakið á 180 gráður í 35-40 mínútur.

Sigtið sukrin melis yfir kökuna þegar hún er orðin köld ef þið kjósið.