Tuesday, October 14, 2014

Spínat pizza


Ég elska pizzu og finnst gaman að prófa mig áfram með nýja pizzubotna.
Þessi botn gæti nú ekki verið hollari.
Spínat, ostur og egg. Getur ekki klikkað.

Ég er hrifin af blómkálsbotninum en er ekki frá því að þessi er betri. Blómkálið á það til að draga í sig vökva og því verður afgangs pizza ekki góð. Ég borðaði afganginn af þessari þegar hún var orðin köld og hún var ekkert síðri og varð ekki mjúk eða slepjuleg.
Spínat pizza

2 góðar lúkur af fersku spínati-rífið stilka frá
1 egg
100g rifin ostur
pizzukrydd og hvítlaukskrydd eftir smekk

Skolið spínat undir köldu vatni. Setjið það síðan í blandara eða matvinnsluvél ásamt eggi og maukið. 
Spínatið á að verða að vökva. Bætið við ostinum og blandið smá í viðbót ásamt kryddum.

Penslið bökunarpappír með olíu eða notið pam sprey.
Dreifið úr botninum á bökunarpappírinn svo úr verði ca 12" botn. 
Best er að nota hendurnar og gera þetta varlega.


Setjið botninn inn í ofn á 200 gráður og bakið í 12-15 mínútur eða þar til aðeins gylltur.


Setjið á pizzuna sykrlausa pizzusósu (ég nota hunt's eða geri sjálf) og það álegg sem þið viljið.
Bakið aftur þar til osturinn er gylltur.

No comments:

Post a Comment