Saturday, February 21, 2015

Súkkulaði karamella
Hér á heimili er karamellu gerð reglulega. Þó aðallega þegar elsta krúttið mitt kemur í mömmuhelgar.
Hann elskar karamellunar mínar og finnst gott að geta nælt sér í einn og einn bita inn í kæli.
En vandamálið er einmitt það, kælirinn.
Þær þurfa að vera í kælinum annars bráðna þær.

Svo það hefur verið smá hausverkur hvernig get ég gert þær án þess að þurfa að geyma þær í kæli.
Já þá þarf maður aðeins að hugsa og þá þarf maður líka oft á internetinu að halda.
Og eftir smá skoðun sá ég að xhantan gum væri sniðugt. Auðvitað en ekki hvað! 

Svo varð ég líka að prófa nýjung sem er að koma á markaðinn hér á Íslandi og ég er búin að bíða spennt eftir. Sukrin:1
Sukrin:1 er sæta sem er jafn sætur og sykur og er blanda af erytrhiol og stevíu.
Sumir hafa kvartað undan köldu eftirbragði sem getur komið af erythiol en hann er ekki að finna á þessari vöru. Mitt nýja uppáhald :)Súkkulaði karamella


3dl rjómi
65g smjör
5msk Sukrin:1 (eða 5msk sukrin og nokkrir stevíu dropar)
2msk Sukrin Gold
2.5msk ósykrað kakó
1tsk vanillu extract eða dropar
salt klípa
1/2tsk xhantan gum

Setjið rjóma, smjör, sætu, vanillu dropa og kakó í pott og hrærið í á meðan hitnar.
Þegar byrjar að sjóða að hræra reglulega í svo ekki brenni við.
Látið malla í ca 15-20 mínútur.
Takið af hitanum og setji smá salt og xhantan gum í pottinn og pískið vel við karamelluna.
Setjið bökunarpappír í lítið eldfastmót sem þolir frysti eða notið silikonform og setjið karamelluna í.
Geymið í frysti í ca klukkustund.
Takið úr frysti og skerið niður í bita.
Ef ykkur langar er hægt að klippa bökunarpappír niður og pakka karamellunum inn.

Má geyma á borðinu en mæli samt með að geyma í kæli svo þær endist lengur.


Wednesday, February 11, 2015

Valentínusarkaka fyrir tvo

Ég held ekki upp á Valentínusardaginn. Finnst hann persónulega algjör óþarfi, svona þar sem hann lendir á milli bónda og konudaginn. Við heiðrum þessa daga á mínu heimili en Valentínusar er bara eins og hver annar dagur. 
En margir halda upp á þennan, dag og hann verður alltaf vinsælli með hverju ári hér á landi.

Ég er búin að vera heima með einn slappan dreng í dag og hann er ótrúlega mikil kelirófa og með rómantíska genið í sér og hann mun örugglega heiðra framtíða maka sinn á þessum degi í framtíðinni.

Svo við ákváðum að skella í eina ofur bleika og væmna köku í dag. Hún er dísæt og já, mjög bleik en smakkast samt sem áður vel. Hún er lítil og dugar fyrir tvo, jafnvel fleiri því ein lítil sneið er nóg til að metta mann.Valentínusarkaka


1msk möndlumjöl
2msk kókoshveiti
1msk ósykrað kakó
1-2msk sukrin
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
60ml rjómi eða kókosmjólk
2 egg
1/2tsk vanilludropar
5-7 dropar súkkulaði eða vanillu stevía


Blandið þurrefnum saman í skál. 
Egg, rjómi, vanilludropar og stevía pískað vel saman.
Blandið öllu vel saman.
Smyrjið lítið 12 cm form með smjöri og setjið helminginn af deiginu í.
Bakið á 170 gráður í ca 20 mínútur.
Látið kökuna kólna og bætið svo rest af deigi í formið og bakið eins og fyrri botninn.

Hægt er að hafa bara einn botn og minnka uppskriftina um helming.

Rjómaostakrem

150g rjómaostur
1/2-1tsk vanilludropar
1.5msk rjómi
5 dropar vanillu stevía
30g sukrin melis
smá rauður matarlitur

Setjið í skál/hrærivél og hrærið vel saman.

Þetta er dáldið stór uppskrift fyrir þá sem vilja drekka kökunni í kremi eins og við gerðum. 
Ef þið ætlið bara að gera hálfa uppskrift af kökunni, þá minnkið þið kremið líka.

Skreytið svo kökuna með smá kókosmjöli.


Thursday, February 5, 2015

Avókadó súkkulaði kökur

Ég skal alveg játa það að ég var þessi sem borðaði mjög einhæft.
Pasta, kjöt, fiskur, mikið af kolvetnum sem voru ekki holl og ávextir og grænmeti fóru aðeins inn í minn munn á fullu tungli, ef svo oft.

Eftir að ég tók út sykur og hveitið hef ég verið að reyna að borða hollara á allan hátt. Passa upp á olíur sem ég nota, koma grænmeti og eitthvað af ávöxtum meira inn í mataræðið.

Fyrir 18 mánuðum síðan gat ég borðað blómkál í fyrsta sinn þegar ég gerði blómkálspopp. Svo hef ég verið að finna leiðir til að nota blómkálið í allskonar bakstur og matargerð og er orðin háð blómkáli.
Broccoli og paprika er að koma sterkt inn hjá mér núna, ásamt avókadó.

Avókadó er mjög hollt og sjúklega gott þegar maður blandar því við súkkulaði. Það gerist einhverjir töfrar þegar þessu tvennur er blandað saman.


Þessar kökur eru fyrir þá sem elska dökkt súkkulaði og smá rammt eftirbragð. Ein kaka með kvöldkaffinu fullkomnar kvöldið.

Avókadó smákökur


80-100g avókadó
50g sukrin gold
1 egg
30g ósykrað kakó
6 dropar bragðlaus stevía (má sleppa)
1/2tsk vanilludropar
1/2tsk matarsódi
50g saxað sykurlaust súkkulaði fyrir þá sem vilja gera kökurnar enn betri

Setjið hráefnin (ekki súkkulaðið) í blandara og blandið vel saman. 
Saxið súkkulaðið og bætið við deigið með sleif.
Ef þú átt ekki blandara geturu maukað avókadóið niður með gaffli og þeytt svo saman við hráefnin.

Notið tvær skeiðar til að færa deigið yfir á bökunarpappír. Ég fékk um 10 stk. úr deiginu.

Bakið á 175 gráður í 8-10 mínútur.
Látið kökunar alveg kólna áður en þið fjarlægið af bökunarpappírnum og geymið í kæli. Þær eru langbesta kaldar.

Monday, February 2, 2015

Sykur og hveitilaus Dísella (Nutella) kaka.


Ég er búin að sjá um allt internetið Nutella-köku með tveimur hráefnum, Nutella og egg.
Einfalt, ekki satt?
Ég ákvað samt sem áður að breyta aðeins hlutföllunum og gera mína eigin útgáfu, einfaldlega út af því að ég tímdi ekki að setja fjögur ekki í kökuna.

Kakan hefur fengið mikla athygli, ekki bara því fólk vill fá að smakka hana heldur líka vegna þess að ég vogaði mér að nota orðið Nutella. Þetta var sett inn í sakleysi. Maður búin að sjá trilljón og þrjár myndir á internetinu þar sem fólk er að útbúa sína eigin uppskrift af Nutella, með og án sykurs svo ég gerði það sama. Setti mynd inn á grúbbu sem ég er í þar sem ég var kölluð lögbrjótur og meðal annars bent á það að ég væri líkleg til að keyra ölvuð undir stýri. Meina, ef ég er tilbúin að brjóta þessi lög er ég líkleg til að brjóta önnur lög víst. Við matarbloggarar eru svakaleg af þessu leyti. Nú er ég bara hreinlega ekki nógu vel inn í svona málum hvort við matarbloggarar og sem höfum gaman af því að búa til hollari/endurbættar útgáfur af nammi og bakkelsi séum að brjóta lög eða hvort þetta sé hlutur sem bara viðgengst. Yfirleitt reynir maður að búa til staðgengil fyrir hlutina og notar það nafn sem fólk kannast við. 

En svo er spurningin hvort ég sé ekki ítrekað búin að brjóta lög þegar ég hef sett inn Bounty uppskriftir og Snickers uppskriftir og kallað þá þessa hluti eins og fullt fullt af fólki.
Spurning hvort ég þurfi ekki bara að fara skella smá kokteil í mig og fara svo á rúntin. Ég er nefnilega margsinnis búin að brjóta af mér ;)

Mér finnst ekkert að því að benda á hluti sem betur mega fara en þarna fór þetta aðeins of langt fannst mér.
En að kökunni.
Kökurnar sem ég hef séð myndir af litu út meira eins og kladdkaka en mín var mun þykkari og meira eins og skúffukaka. Hún er ekki eins kremuð en bragðið er gott. Ríkjandi heslihnetubragð er fullkomið með þeyttum rjóma.

Kannski verður hún meira kladdkökuleg ef maður bætir við fjórða egginu. Hver ætlar að prófa og láta mig vita hvernig gengur?

Dísella/Nutella kaka

3 stór egg
250g heimagert nutella

Þeytið eggin mjög vel í hrærivél þar til þau eru búin að þrefalda sig í ummáli.
Notið sleikju til að blanda nutellanu varlega við. Gott að setja ekki allt súkkulaðið í egginn í einu.
Setjið í 20cm silikon form. Ef þið eigið ekki silikon form þá er hægt að setja bökunarpappír inn i formið eða smyrja það með smjöri.

Bakið kökuna á 175 gráður í ca 25 mínútur eða þar til gaffall kemur hreinn úr kökunni ef stungið er í hana.