Tuesday, March 22, 2016

Spínat pestó Dísu


Ég trúi því varla að það sé að koma páskar!
Finnst eins og ég sé nýbúin að taka niður jólin.
Tíminn flýgur áfram eins og alltaf en það sem skiptir máli er að geta notið stundarinnar.
Ég hef getað það heldur betur síðustu mánuði.

Satt að segja finnst mér ótrúlegt hvað lífið hefur breyst hjá mér.
Fyrir ári síðan var ég á fullu í endurhæfingu. Óvinnufær með öllu, gat ekki stundað líkamsrækt og hafði enga orku og já lífið var erfitt. Já það var virkilega erfitt að hafa enga orku, vera verkjaður og geta ekki unnið. Satt að segja bjóst ég ekki við að ég kæmist aftur út á vinnumarkaðinn.

Kannski var þetta líka alveg extra erfitt fyrir konu sem veit ekki hvað þolinmæði þýðir.
Oft var þetta eitt skref framá við og tvö, jafnvel þrjú afturá bak. 
Verst fannst mér sú tilhugsun að geta ekki unnið við það sem ég væri menntuð, sjúkraliðan. Enda er það starf sem virkilega tekur á líkama og sál.

Þannig að í dag finnst mér ótrúlegt að ég sé komin í 100% vinnu við menntun mína, stunda hreyfingu með og get sinnt heimili og börnum vel. Og kannski það besta við þetta er að ég geri þetta allt með bros á vör. Já lífið hefur heldur betur breyst á ekki meiri tíma en þessu.

Það sem ég hef kannski lært mest í endurhæfingunni er að taka hænuskref, ekki ætla mér of mikið í einu. Ég byrjaði fyrst í 50% starfi og fór svo að auka við mig. Svo kom hreyfinginn smátt og smátt og ef ég finn fyrir þreytu þá er í lagi að hvíla sig og láta þvottinn aðeins bíða eftir vinnu.

Maður kann svo mikið að meta þessu smáu hluti eins og að geta farið í vinnuna, göngutúr með fjölskyldunni og já þrifið heima hjá sér þegar maður hefur upplifað það hvernig það er að geta ekki gert þessa hluti.

En já, langaði bara aðeins að skrifa um þetta hjá mér :)
En um daginn ákvað ég að útbúa þetta dýrindis pestó úr því sem ég átti heima.
Það var mjög vinsælt hjá vinnufélögunum og ófáir búnir að fá uppskriftina hjá mér.

Myndin er ekki upp á marga fiska en ég lofa að bragðið er mjög gott :)


Spínat pestó Dísu


125g spínat (fjarlægi stilkana)
75g möndlur. Var með hýðið á mínum
100g fetaostur (notaði fetaostakubb frá MS)
60ml góð olífuolía
2 hvítlauksgeirar
pipar eftir smekk.

Setjið möndlur og spínat í matvinnsluvél og maukið vel saman.
Því næst er restinni af hráefninu sett út í og blandað.
Smakkið til með piparinn.

Pestóið er best þegar það hefur fengið að sitja aðeins í kælinum eða eftir ca. sólahring.